Árásin á rithöfundinn Salman Rushdie er aðför að tjáningar- og ritfrelsi um allan heim að mati Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektors Listaháskóla Íslands en hún er vel kunnug bókmenntum Rushdie og þeim áhrifum sem þær hafa haft.

Í nýjustu fréttum af ástandi Rushdie hefur komið fram að hann er nú kominn úr öndunarvél og er farinn að tjá sig en umboðsmaður hans gaf út stutta yfirlýsingu í dag á twitter.

Í viðtali við Fréttablaðið deilir Fríða reynslu sinni af viðburði þar sem Salman Rushdie kom fram tæpum þremur árum eftir að Fatwa (dauðahótun) hafði verið lýst á hendur honum fyrir skrif sín í bókinni Söngvar Satans sem kom út árið 1988.

Bókin Söngvar satans er ein þekktasta bók Rushdie en gefið var út Fatwa (dauðahótun) á hendur honum fyrir að skrifa hana.
Mynd/getty

Tveggja heima sýn Salman Rushdie

Salman Rushdie fæddist á Indlandi og hefur því í raun tvöfaldan uppruna þar sem hann flytur snemma í lífi sínu til Bretlands þar sem hann gengur í skóla.

„Bókmenntir hans eru tveggja heima sýn og hann kemur inn á þeim tíma í breskum bókmenntum þar sem verið er að færa það sem vestræn menningarvitund taldi jaðar, inn í meginstraum vestrænnar menningar. En auðvitað var sá heimur sem Rushdie lýstir enginn jaðar þar sem um var að ræða gríðarlega stór menningarsamfélög í samanburði við Vesturlönd. Rushdie var frumkvöðull við að færa nýja strauma og stefnur fyrrum nýlendna Breta inn í meginstraum hinna vestrænu bókmennta og tekst það svona ótrúlega vel bæði í Söngvum Satans og öðru sem hann hefur skrifað,“ segir Fríða en Rushdie olli miklum straumhvörfum með skrifum sínum bæði í vestrænum og mið-austurlenskum samfélögum

Birtist óvænt eftir 1002 daga

Fríða var viðstödd þegar Salman Rushdie kom fram í fyrsta skipti eftir að Fatwa var lýst á hendur honum af Ayatollah Khomeini þáverandi leiðtoga Íran, hún var þá við nám í Norwich í Bretlandi.

Hann birtist þá óvænt á viðburði eitt þúsund og tveimur dögum eftir að Fatwa hafði verið lýst yfir en tímasetningin vísaði til mið-austurlenska bókmenntaverksins Þúsund og ein nótt þar sem sögukonan Scheherazade segir sögur í þúsund og eina nótt til að bjarga lífi sínu.

„Á þessum tíma var ég í námi í við East Anglia háskólann, og þar var afskaplega sterkt ritlistar nám þar sem margir frægir rithöfundar og jafnaldrar Rushdie höfðu lært eins og til dæmis Ian McEwan og Kazuo Ishiguro,“ segir Fríða. Hún segir ríka hefð hafa verið fyrir því að þekktir höfundar væru með fyrirlestra í skólanum „yfirleitt kom einhver í hverri viku. Ég hitti meðal annars Arthur Miller og Doris Lessing í gegnum þessa fyrirlestra og lagði í vana minn að mæta. Höfundarnir fluttu erindi og síðan spjallaði einhver kennara okkar við viðkomandi í kjölfarið . Þetta kvöld var komið að Fay Weldon,“ segir Fríða, og að hefðbundinni dagskrá lokinni stóð kynnirinn upp og beindi því til þeirra sem þyrftu að fara að vinsamlegast gera það, en ef einhver hafi áhuga á því að sitja áfram og taka þátt í óvæntri uppákomu þá gætu þeir setið áfram. Einhverjir fóru en flestir og ég þar á meðal urðu eftir enda vorum við spennt að vita hvað myndi gerast. Síðan koma vopnaðir öryggisverðir inn og loka öllum dyrum og standa með alvæpni við alla útganga. Um leið og búið var að tryggja salinn gekk Salman Rushdie inn á sviðið en hann hafði þarna ekki sést eða hitt neinn í þúsund og tvo daga.“

Rushdie deildi með áheyrendum reynslu sinni af því að vera í felum eftir að dauðahótunin hafði verið gefin út í samtali við Weldon.

„Hann lýsti því hvernig líf hans snerist um að fara íbúð úr íbúð undir umsjón sérssveitarmanna. Í hvert skipti sem hann var svo búinn að koma sér fyrir þá þurfti hann að rífa sig upp og fara annað. Hann gat hvorki sagt konunni sinni né börnunum sínum hvar hann var staddur hvað þá öðrum í fjölskyldunni eða vinum.

Enginn vissi hvar hann var nema þeir sem sáu um öryggis hans enda var mikil áskorun að koma í veg fyrir að upp kæmist hvar hann hélt til hverju sinni.“

Eftir að fyrirlestrinum lauk fékk Fríða Faye Weldon til þess að árita bók hennar með áletruninni 1002 dagar til minningar um atburðinn. Rusdhie gat auðvitað ekki verið í návígi við fólk til að árita bækur á þessum tíma „Það var engum hleypt nálægt honum,“ segir Fríða

Áletrun Faye Weldon í bók fríðu segir "Faye Weldon UEA (Háskóli East Anglia), 1002 dagar"
Mynd/aðsend

Hafði víðtæk áhrif í heiminum

Fríða segir að daginn eftir viðburðinn hafi öll helstu blöð Bretlandi fjallað um Salman Rusdie og þessa uppákomu.

„Því þetta þótti svo mikill viðburður“ segir Fríða.

Áhrifin af skrifum Rushdie náðu einnig til Íslensks samfélags.

„Illugi Jökulsson sem þýddi Söngva Satans yfir á íslensku, mátti væntanlega óttast um líf sitt. Japanski þýðandinn var myrtur fyrir sína þýðingu og ráðist á þann danska sem lifði það af. Svo voru þessar bækur brenndar á götum úti,“ segir Fríða.

Þrátt fyrir að nú séu meira þrjátíu ár liðin frá þessum atburðum eigi tjáningarfrelsið enn undir högg að sækja og að ákveðið bakslag sé í þeim málum. „Það er erfitt að horfa upp á þetta 30 árum seinna. Að framfarirnar séu ekki meiri og að umburðarlyndi og skilningur á og virðing fyrir ólíkum sjónarhornum hafi ekki náð fótfestu. Þetta er kannski sambærilegt við það sem við sjáum í hinsegin heiminum nú þar sem talað er um ákveðið bakslag,“ segir Fríða

Þrjátíu árum seinna er þöggun enn viðhöfð

Fríða segir að árásin á Rushdie síðastliðinn föstudag sé aðför að tjáningar- og ritfrelsi og að tilræði sem þetta sé auðvitað tilraun til þöggunar með því að vekja ótta þvert á heimsbyggðina. „Markmiðið með Fatwa og refsingu af þessu tagi er í raun að koma í veg fyrir að aðrir tjái sig með svipuðum hætti og Rushdie eða eindaldlega tjái sig frjálst um það sem einhverjum þóknast ekki að sé sagt. Slíkt er þöggun í æðsta veldi,“ segir hún.