Þeir sem ekki alast upp við þorramat fúlsa yfirleitt við honum og telja okkur Íslendinga jafnvel eitthvað skrítna í hausnum fyrir að vilja leggja okkur þetta til munns. En íslenska þjóðin er alls ekki ein um að hafa matarsiði sem fólki frá öðrum löndum finnst skrítnir eða jafnvel ógeðslegir. Hér eru nokkur misgeðsleg dæmi.

Ormaostur

Casu martzu er ostur frá Sardiníu sem er fullur af skordýralirfum. Nafnið þýðir „rotinn ostur“ en hann er oftast kallaður ormaostur og hefur verið bannaður af heilsufarsástæðum.

Osturinn er gerður úr kindamjólk og líkist pecorino-osti, en það er búið að setja lirfur ostaflugu (Piophila casei) í hann. Osturinn gerjast þegar lirfurnar melta fituna í ostinum og hann verður mjög mjúkur og vökvi fer að seytla út. Það þarf að borða ostinn á meðan lirfurnar eru enn á lífi, annars telst hann eitraður. Lirfurnar geta stokkið þegar þær eru truflaðar, þannig að það þarf líka að passa sig á fljúgandi ormum, en í venjulegum osti eru þúsundir þeirra.

Fuglahreiðurssúpa

Kínverjar gera súpu úr hreiðrum svölunga sem er kölluð kavíar austursins. Svölungar gera hreiður sín fyrst og fremst úr munnvatni og það er eitthvað í munnvatninu sem gefur hreiðrunum einstaka og hlaup- eða gúmmíkennda áferð. Þessi réttur er ein dýrasta dýraafurð sem er borðuð í heiminum, því hreiðrin eru fágæt og það er erfitt og hættulegt að safna þeim. Skálin kostar á bilinu 3.800-13.000 krónur og talið er að þessi réttur hafi góð áhrif á kynhvötina, en hann er einnig mjög næringarríkur.

Kínverjar gera súpu úr hreiðrum svölunga, en þeir gera hreiður sín fyrst og fremst úr munnvatni. Súpan er kölluð kavíar austursins. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Steiktar tarantúlur

Í Kambódíu er vinsælt að borða pönnusteiktar tarantúlur með salti og hvítlauk. Tarantúlurnar eru steiktar í heilu lagi, með löppum, vígtönnum, hárum og öllu. Sagt er að þessi réttur hafi náð útbreiðslu þegar fólk svalt á dögum Rauðu khmeranna en í dag er hann vinsæll meðal ferðamanna. Tarantúlurnar eru víst stökkar að utan en mjúkar að innan og bragðast svipað og kjúklingur eða þorskur. Það er lítið kjöt í löppunum en meira í búknum og hausnum. Afturhlutinn er hins vegar fullur af eggjum, innyflum og saur.

Frjóvguð egg

Á Filippseyjum er mjög vinsælt að borða frjóvguð egg, kölluð balut. Andaregg eru vinsælust en hænuegg eru líka notuð. Eggin eru soðin stuttu áður en ungarnir klekjast út þannig að þau innihalda fóstur. Það er misjafnt hversu þroskuð egg fólk vill fá, en þau sem eru lengst komin innihalda kjúklingafóstur sem er með gogg, klær, bein og fjaðrir.

Þau er talin góð fyrir kynhvötina og innihalda mikið prótein. Eggin eru krydduð með salti, sítrónusafa, svörtum pipar og kóríander, en sumir kjósa frekar eldpipar og edik.

Surströmming

Þessi sænska síld er kæst í einn til tvo mánuði í tunnum áður en hún er sett í dósir, þar sem hún heldur áfram að kæsast mánuðum saman. Það skapast svo mikill þrýstingur í dósunum að þær belgjast oft út og það þarf að opna þær varlega svo illa þefjandi vökvi sprautist ekki um allt. Þó nokkur flugfélög hafa bannað fólki að ferðast með surströmming vegna þrýstingsins í dósunum.

Surströmming er yfirleitt borðuð með stökku flatbrauði og soðnum kartöflum og fólk skolar henni niður með mjólk, vatni eða bjór.