Eva María Hallgrímsdóttir er ástríðubakari og eigandi að kökubúðinni Sætar Syndir. Eva María þekkt fyrir að bjóða uppá sælkerakökur sem eru fagurlega skreyttar á persónulegan og skemmtilegan hátt. Á dögunum opnaði Eva María einnig Kampavínskaffihús í Smáralindinni þar sem bleiki liturinn og fagurlegu skreyttu kökurnar eru í forgrunni þar sem hægt er að njóta og fá sér High Tea að breskum hætti. Eva María stofnaði Sætar Syndir vegna þess að þegar sonur hennar fæddist vaknaði hjá hjá henni mikill áhugi á kökuskreytingum, sérstaklega í tengslum við afmælin hans. Þá fóru hlutirnir svo sannarlega að vinda upp á sig og heimabaksturinn fór í útrás ef svo má að orði komast.

Ævintýrið hófst með einni hrærivél og bakarofn

„Með tímanum urðu kökurnar alltaf flóknari og viðameiri ásamt því að hæfileikar mínar á þessu sviði jukust. Ég hafði séð og heyrt að það væri eftirspurn og vöntun á persónulegri kökum á markaðinn og því gaman að geta boðið uppá meira úrval. Ég hóf þetta ævintýri með eina hrærivél og bakaraofn en í dag eru tækin og tólin af annarri stærðargráðu. Sætar Syndir er stærsta fyrirtækið á landinu í sérskreyttum kökum og erum við einnig með kökubúð í Hlíðasmára 19 sem er ávallt full af kræsingum. Einnig hefur fyrirtækið fjölmargar vörur til sölu í búðum Hagkaupa. Hjá fyrirtækinu starfa snillingar í skreytingagerð sem hafa gert fyrirtækinu kleift að vaxa og dafna frá upphafi.“

Áramótakakan sem gleður bæði auga og mun

Eftir að þú stofnaðir og opnaðir Sætar syndir hefur það þá verið árleg hefð hjá þér að vera með áramótakökur sem hafa verið skreyttar með glimmer og knöllum? „Við höfum alltaf gert áramótaköku í Sætum Syndum en það er gríðarlega vinsæl kaka enda gera sér flestir glaðan dag á áramótunum og þá auðvitað tilvalið að hafa köku. Áramótakökurnar okkar seljast alltaf upp en við erum að gera um það bil 100 áramótakökur fyrir hver áramót.“ Gerðir þú svona áramótakökur áður en þú opnaðir Sætar syndir? „Nei, ég var lítið í að gera kökur áður en ég byrjaði með Sætar Syndir. Þetta hófst allt þegar sonur minn kom í heiminn og móðurhlutverkið fól í sér að baka og gera fallegar kökur sem síðan varð að atvinnu.“

Það má sko alveg kveðja árið 2020 með þessari köku!

Bleik með gylltri Bottega, áratali og blysi

Ertu til að segja okkur frá áramótakökunni í ár? Hún verður væntanlega stórfenglegri en nokkru sinni fyrr. „Áramótakakan í ár verður að sjálfsögðu glæsileg enda þörf á því þar sem 2020 hefur verið óvanalegt ár fyrir flesta. Held að flestir gleðjist yfir því að árið sé á enda og að 2021 komi með vonir um betri tíma þó svo að árið hafi verið gjöfult þá hefur það verið erfitt fyrir marga. Kakan verður bleik, skreytt með gylltri Bottega freyðivínsflösku og svo 2021 skilti og blysi. Við munum vera með hana í tveimur bragðtegundum, súkkulaðiköku með saltkaramellu sem er ein vinsælasta bragðtegundin okkar og svo vanilluköku með karamellusúkkulaði mousse og hindberjum. Ólíkar en einkar skemmtilegar bragðtegundir.“ Hvar færðu innblásturinn þegar þú ert skapa nýja kökur eins og þessa? „Þegar maður er svona mikið að vinna með kökur þá er síminn minn fullur af kökumyndum og hugmyndum en þetta er auðvitað áhugasvið mitt.“