Danska hljómsveitin Aqua fetar í dansspor Páls Óskars í tengslum við stórviðburðinn WorldPride með sinni eigin ábreiðu af diskólaginu sígilda I am what I am sem Páll Óskar heimfærði 2008 þegar hann söng Ég er eins og ég í Gleðigöngunni 2008.

Danska hljómsveitin Aqua hefur gert ábreiðu af laginu I am what I am í tengslum við stórviðburðinn WorldPride sem leggur áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika. Viðburðurinn fer fram í Kaupmannahöfn og Malmö í næsta mánuði þar reiknað er með að mörg þúsund manns muni fagna fjölbreytileikanum.

Aqua leggur með ábreiðunni hátíðinni til sitt eigið opinbera lag og vefmiðillinn dr.dk. hefur eftir Lene Nystrøm, söngkonu hljómsveitarinnar, að þau séu afar stolt af þessari útgáfu þeirra af I am what I am og samstarfinu við Pride-hreyfinguna.

Aqua sló í gegn á heimsvísu seint á níunda áratugnum með smellum á borð við „Barbie Girl“ og „Doctor Jones“, og meðlimir hljómsveitarinnar eru hæstánægðir með að geta stutt LGBTI + samfélagið með tónlistarlegu framlagi á hátíðinni.

Tónlistamaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson tók lagið sínum tökum hér á landi árið 2008 þegar hann söng Ég er eins og ég er. Tónskáldið Jerry Herman samdi það upphaflega fyrir Broadway söngleikinn La Cage aux Folles en það varð ódauðlegt í meðförum söngkonunnar Gloria Gaynor á áttunda áratugnum þar sem það var hluti af alheimsbyltingu diskóbylgjunnar áður en hinsegin samfélagið tók það upp á sína arma og gerði að hálfgerðum þjóðsöng sínum.