Vísindamenn sem starfa við vísinda- og tækniháskóla Noregs (NTNU) eru að þróa snjallsímaforrit sem á að hjálpa fólki að vita hvenær er von á mígreniköstum og koma í veg fyrir þau. Appið á að gera þetta með upplýsingum sem það fær frá skynjurum sem eru festir á líkamann og dagbók sjúklinga yfir köstin, en sjúklingar þurfa líka að stunda þjálfun í appinu í 10 mínútur á dag. Fjallað var um þróunarvinnuna á vefnum Science Norway.

Einn af hverjum sjö þjáist af mígreni og einn af hverjum hundrað upplifir króníska höfuðverki. Sársaukafullir höfuðverkir geta skemmt fyrir félagslífi fólks og minnkað getu þess til að vera virkt í starfi. Hefðbundin mígrenilyf hjálpa mörgum, en hafa oft neikvæðar aukaverkanir. Vonast er til að appið geti hjálpað fólki með mígreni án lyfja.

Annar skynjaranna er settur á hálsinn til að mæla vöðvaspennu og hinn á fingur til að mæla hjartslátt og hitastig. Skynjararnir senda svo upplýsingar í snjallsíma notandans, sem sýnir þær á skjá. MYND/SCIENCENORWAY

„Óviðeigandi gangsetning ósjálfráða taugakerfisins, til dæmis vegna streitu, getur orsakað mígreniköst,“ segir Alexander Olsen, aðstoðarprófessor við sálfræðideild háskólans. „Þegar taugakerfið fer í gang sést það í breytingum á hjartslætti, vöðvaspennu og hitastigi fingra. Yfirleitt höfum við ekki beinan aðgang að þessum merkjum, en ef við fylgjumst með þeim með skynjurum getum við þjálfað okkur til að ná stjórn á þeim.“

Tíu mínútur á dag

Til að virkja appið þarf notandinn að stunda þjálfun í því í tíu mínútur á dag. Annar skynjaranna er settur á hálsinn til að mæla vöðvaspennu og hinn á fingur til að mæla hjartslátt og hitastig. Skynjararnir senda svo upplýsingar í snjallsíma notandans, sem sýnir þær á skjá. Hraðari hjartsláttur, aukin vöðvaspenna og lágt hitastig á fingri eru hefðbundin streituviðbrögð og þau geta orsakað mígreniköst.

Hugmyndin er að sjúklingar læri á tengslin milli þessara viðbragða og líðan þeirra og þjálfunin hjálpi þeim svo að koma í veg fyrir köst.

Appið tekur við upplýsingum um líkamleg viðbrögð frá skynjurunum tveimur og notandinn fyllir líka út höfuðverkjadagbók í appinu, þar sem hann skráir lyfjanotkun og lengd, styrk og staðsetningu mígreniverkjarins.

Gervigreind notar þessar upplýsingar svo til að laga appið að notandanum. Hún ber saman upplýsingarnar frá líkamsskynjurunum og dagbókinni og gefur sjúklingnum leiðbeiningar sem hjálpa honum að ná sem mestu út úr daglegu þjálfuninni. Appið gefur sjúklingnum meira að segja stig á skalanum 0-100 út frá því hversu vel þjálfunin heppnast.

Á endanum á appið að geta spáð fyrir um köst, hversu lengi þau vara og hversu slæm þau verða.

Gagnlegt fyrir ungmenni

„Álag getur valdið mígreniköstum, ekki bara neikvætt álag, heldur líka jákvætt, eins og til dæmis tilhlökkun,“ segir Erling Andreas Tronvik, prófessor sem starfar við rannsóknir á höfuðverkjum við St. Olav spítala í Ósló. „Við vitum að hægt er að þjálfa ósjálfráða taugakerfið til að minnka mígreniköst og þetta app gerir tilraun til að nýta þá hæfni.“

Prófessor Erling Andreas Tronvik segir að appið geti verið mikil framför og gagnast ungmennum sérlega vel. MYND/NTNU

Hann segir að slíkar aðferðir hafi gefið mjög góða raun í Bandaríkjunum. Þar fólk fær hjálp sálfræðinga við að þjálfa ósjálfráða taugakerfið og að það væri mikil framför að geta notað app með gervigreind til að gera þetta heima við.

Mögulega væri hægt að nota appið og lyfjagjöf á sama tíma, en margir læknar eru hikandi við að gefa börnum og unglingum mígrenilyf vegna aukaverkana þeirra, svo appið gæti þjónað þessum yngri hóp vel.

„Ég held að það væri vit í að prófa að nota appið sem fyrstu meðferðina fyrir börn og ungmenni, að því gefnu að það virki eins vel og við vonum,“ segir Tronvik. „Ef sjúklingar geta gert þetta heima hjá sér þegar þeim hentar og það tekur bara 10 mínútur á dag verður þetta mun auðveldara og fólk tilbúnara til að nýta þessa meðferð.“

Gæti leyst fleiri vandamál

Fámenn rannsókn á gagnsemi appsins stendur nú yfir í Noregi. Bráðabirgðaniðurstöður gefa til kynna að appið geri þátttakendum auðveldara að þekkja merki frá líkamanum, en lokaniðurstöðurnar verða kynntar í sumar. Vonast er til að hægt verði að hefja stærri rannsóknir í framhaldinu.

Ef appið virkar eins vel og vonir standa til kemur til greina að prófa það gegn öðrum vandamálum sem tengjast ósjálfráða taugakerfinu, eins og þunglyndi og kvíða.

Vonast er til að appið verði tilbúið innan tveggja ára, en í millitíðinni þarf það frekari þróun og prófun og það á líka eftir að fara í gegnum samþykktarferli Evrópusambandsins fyrir lækningatæki.