Á bak við Apéro Vínbar standa hjónin Marie-Odile Désy og Garðar Víðir Gunnarsson, sem bæði eru lögfræðingar að mennt en hafa þó ávallt haft mikinn áhuga og ánægju af góðum mat og víni. Apéro Vínbar er hugarfóstur Marie-Odile en hugmyndin kviknaði þegar hún stundaði MBA nám við Háskólann í Reykjavík og langaði til að hefja innflutning á frönskum vínum.

Marie-Odile bjó og starfaði sem lögmaður í París og London um árabil áður en hún fluttist til Íslands. Vínmenningin í þessum borgum er auðvitað frábær og framboð gæðavína frá smáum framleiðendum er mun meira en hér á landi segir Marie-Odile. Mark­miðið og sérstaða Apéro er meðal annars að bjóða upp á gæðavín frá smáum framleiðendum sem annars væru ekki á boðstólnum hér á landi. Áherslan er líka að bjóða upp á úrval góðra vína þar sem hægt er að kaupa aðeins eitt glas í staðinn fyrir að þurfa að kaupa alla flöskuna. Það er líka partur af því að uppgötva nýja hluti að geta leyft sér að kaupa eitt glas af góðu víni og geta svo jafnvel skipt yfir í annað hérað og aðrar þrúgur í næsta glasi segir Marie-Odile. „Á bak við barinn á Apéro eru tvær vélar sem geta geymt 16 mismunandi vínflöskur við kjöraðstæður jafnvel þótt flöskurnar hafi verið opnaðar og það gerir okkur þannig kleift að bjóða upp á svona mikinn fjölda gæða vína í glasavís,“ segir Marie-Odile.

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 07.jpg

Þau hjón flytja sjálf inn allt það vín sem er í boði á Apéro. „Það er hluti af því sem ég saknaði frá París að geta uppgötvað vín og kampavín frá þessum smáu og oft á tíðum óþekktu framleiðendum sem svo reynast stundum vera faldir geimsteinar. Það er hluti af því sem Apéro stendur fyrir er að gestir geti gengið að gæðum í hverju glasi og eigi kost á því að prófa vín sem ekki eru fáanleg annars staðar. Sum af þeim vínum sem eru í boði á Apéro eru framleidd í afar takmörkuðu magni og sum þeirra er erfitt a nálgast jafnvel í Frakklandi en það sem er gaman er að geta komið fólki skemmtilega á óvart,“ segir Marie-Odile.

Fyrir Marie-Odile á þessi áhugi á vínmenningu sér þó dýpri rætur þar sem hún eyddi flestum sumrum á unglingsárunum í Suður Frakklandi hjá fjölskylduvinum sem ræktuðu meðal annars þrúgur sem voru seldar til ýmissa vínframleiðenda. „Nú er þessi ræktun í höndum dóttur vinafólksins sem núna nýtir þrúgurnar sjálf og framleiðir vín undir eigin vörumerki. Það er gaman að segja frá því að fyrsti samningurinn sem við gerðum um innflutning á víni til Ísland var einmitt frá henni,“ segir Marie-Odile.

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 17.jpg

„Núna er aðeins boðið upp á frönsk vín á Apéro og erum við með u.þ.b. 120 mismunandi tegundir af vínum og kampavínum sem við flytjum frá nokkrum framleiðendum í Frakklandi. Stefnan er að auka við framboðið eftir því sem fram vindur og bæta við framleiðendum frá fleiri vínhéruðum í Frakklandi og jafnvel öðrum löndum,“ segir Maria-Odile. Þessi áhersla á Frakkland til að byrja með er fyrst og fremst tilkomin vegna tengsla Marie-Odile við Frakkland sem auðveldar margt í öllu ferlinu. „Við höfum til dæmis farið og hitt flesta þá framleiðeiðendur sem við kaupum af og erum í beinum samskiptum við þá. Það er ótrúlega skemmtileg upplifun að fá að hitta fólkið sem framleiðir vínin sem við bjóðum upp á og hefur lagt hjarta og sál í framleiðsluna. Það er saga á bak við hverja flösku og mér þykir mikilvægt að geta miðlað þeim upplýsingum áfram til þeirra sem hafa áhuga á því að fræðast um slíkt,“ segir Marie-Odile.

Nafnið Apéro var eitt það fyrsta sem var ákveðið og hafði meira að segja verið ákveðið áður en endanleg staðsetning staðarins lá fyrir. „Apéro er í raun stytting á “aperitif” og á sér djúpar rætur í franskri matar- og vínmenningu og er mikilvægur þáttur í daglegu lífi Frakka. Þetta er gildishlaðið orð og er í raun tilvísun til þeirrar athafnar þegar fólk tekur sér tíma til þess að njóta þess að vera saman og fá sér góðan drykk og smáa rétti með. Félagslegi þátturinn er í lykilhlutverki þegar kemur að „l‘apéro“ enda snýst það um að taka sér tíma frá daglegu amstri hversdagsleikans, halda og rækta sambandi við vini og fjölskyldu og njóta þess að vera til. Okkur fannst nafnið Apéro ná fullkomlega utan um það sem okkur langaði að gera sem var að búa til stað þar sem fólk gæti notið þess að tala saman yfir góðu vínglasi í hlýlegu og kósí umhverfi. Það er máltæki á frönsku segir segir að bestu vínin eru ekki endilega þau dýrustu heldur þau sem hægt er að njóta saman og deila með öðrum. Að geta notið þess að deila góðri stund yfir vínglasi með vinum og fjölskyldu og fyrir okkur að geta boðið upp á vín sem ekki eru í boði annars staðar og geta deilt upplýsingum um hvaðan vínin koma, hvernig þau eru framleidd og um þá vínbændur sem standa að baki vínunum er það sem Apéro Vínbar snýst um og stendur fyrir.“

Einnig er í boði að panta smárétti á staðnum. „Við bjóðum upp á smárétti sem eru venjulega hluti af þessu franska apéro og sem passa vel við vínlistann okkar, til dæmis gougères sem eru ostafylltar vatnsdeigsbollur og osta- og charcuterie bakkar með nýbökuðu brauði. Í sumar hefur svo verið boði upp á pan con tomate sem er ferskir tómatar með hvítlauk og ólífuolíu á ristuðu súrdeigsbrauði. Matarframboðið er árstíðabundið og við erum þessa dagana að vinna í því að setja saman haust matseðilinn,“ segir Marie-Odile.

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 16.jpg

Eins og áður sagði er Apéro Vínbar til húsa á 2. hæð á í sögufrægu húsi að Laugavegi 20b sem oft er kennt við Náttúrulækningafélagið. „Það var ráðist í talsverðar endurbætur en þó ekki farið í að breyta innra skipulagi enda húsið næstum 120 ára gamalt og býr yfir einstökum karakter. Við vildum að þessi gamli stíll fengi að njóta sín eins og viðarstoðirnar og rauðu múrsteinarnir en það minnti okkur á stíl sem má finna í húsbyggingum bæði í Montreal og Bretagne sem hvoru tveggja eru staðir sem eru okkur afar kærir,“ segir Garðar Víðir.

„Hönnun staðarins og endurbæturnar voru unnar í samstarfi við Rúnu Kristinsdóttur hönnuð sem vann þetta með okkur í gegnum allt ferlið alveg frá upphafi. Við vorum einnig með einstaklega færa og úrræðagóða smiði með okkur í liði. Það má því segja að vegferðin hafi verið nokkurs konar samstarfsverkefni margra aðila. Við höfðum þó frá upphafi skýra sýn um hvernig við vildum að útkoman yrði og hvað staðurinn ætti að standa fyrir. Við vildum hlýlegt og þægilegt umhverfi sem fangar þessa apéro stemningu þar sem fólk getur notið þess að vera saman yfir góðu vínglasi,“ segja þau hjónin að lokum alsæl með útkomuna.

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 03.jpg

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 01.jpg

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 08.jpg

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 04.jpg

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 18.jpg

Apéro vínbarum Marie-Odile Gunnarsson og Garðar Víðir Gunnarsson 02.jpg