At­hafna­maðurinn Anton Kristinn Þórarins­son hefur sett glæsi­bif­reið sína á sölu. Þetta kemur fram á vef Hring­brautar en um er að ræða jeppa af gerðinni Range Rover Sport.

Á­sett verð eru rétt tæpar fimm­tán milljónir króna. Fram kom í frétt Ríkis­út­varpsins frá 19.febrúar að lög­regla hefði lagt hald á bílinn í tengslum við rann­sókn á morðinu á Armando Beqiri.

Anton sat um tíma í gæslu­varð­haldi vegna málsins en þegar mest var voru fjór­tán manns í haldi vegna rann­sóknarinnar. Fram kemur í frétt Hring­brautar að Anton hafi skráð bílinn til sölu þann 17. mars síðast­liðinn.

Anton var síðar látinn laus þann 2. mars síðast­liðinn en úrs­skurðaður í far­bann. Albanskur karl­maður hefur játað að hafa orðið Beqiri að bana með skot­vopni fyrir utan heimili hans í Rauða­gerði.

Fram kemur á vef Hring­brautar að Anton hafi fengið byggu­ingar­leyfi á einni glæsi­legustu sjávar­lóð landsins við Hauka­nes í Garða­bæ. Hana keypti hann af Rasmusi Rojkja­er, fyrr­verandi for­stjóra Al­vot­ech á Ís­landi en um var að ræða 288 fer­metra ein­býlis­hús í slæmu á­standi og fékk Anton svo sam­þykki í fyrra hjá bæjar­ráði Garða­bæ fyrir endur­byggingu og stækkun húsisns.

Segir í frétt Hring­brautar að bíll Antons sé 2019 ár­gerð. Hann er ekinn 33 þúsund kíló­metra og er vélin 404 hest­öfl. Leður­sæti eru í bílnum, nudd í fram­sætum og skjáir í höfuð­púðunum, svo eitt­hvað sé nefnt.

Mynd/100bilar
Mynd/100bilar