Ann­þór Kristján Karls­son er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Ann­þór, sem var í ára­raðir þekktur fyrir að vera einn al­ræmdasti glæpa­maður Ís­lands lýsir því meðal annars í þættinum að það hafi komið fyrir oftar en einu sinni að lög­reglan hafi bent fólki á að leita til sín vegna skulda, þegar úr­ræði fólks til að inn­heimta peningana voru ekki til staðar í kerfinu.

„Það hefur alveg gerst já. Al­gengustu skuldirnar og hæstu fjár­hæðirnar í hand­rukkunum á Ís­landi eru til­vik þar sem fólk situr eftir með sárt ennið eftir kenni­tölu­flakk eða annað slíkt í verk­taka­bransanum.

Stundum er fólk kannski að fara að missa í­búðina sína eða er með veð hjá for­eldrum eftir að hafa verið svikið um háar upp­hæðir og svo er ein­hver bara að eyða þeim peningum. Það er auð­vitað ekki rétt að hand­rukka, en kerfið okkar er oft gallað og fólk situr eftir og á bara rétt í eitt­hvað þrota­bú eftir að hafa verið svikið.“

Verk­efnunum rigndi inn eftir um­fjöllun DV

Ann­þór segist hafa fengið inn á borð til sín gífur­legt magn af beiðnum eftir að hann varð þekktur og oft hafi upp­hæðirnar verið gríðar­lega háar.

„Yfir­leitt nennti maður ekki að hreyfa sig mikið fyrir minna en milljón, en þetta gat alveg farið upp í 30-40 milljónir. Það hefur tíðkast hér á landi að hand­rukkarinn tekur 50% af því sem hann nær í, enda lítur fólk oft á þetta sem tapað fé.

Það er ekkert mafíu­kerfi í þessu á Ís­landi eins og fólk virðist oft halda og ekki ein­hver sér­stök stétt­skipting í glæpa­heiminum. En eftir að DV fór að fjalla svona mikið um mig í kringum 2005 rigndi inn verk­efnum hjá mér.“

Borgaði lög­reglunni fyrir upp­lýsingar

Ann­þór segir að þegar hann hafi verið sem um­svifa­mestur í glæpunum hafi hann verið með tvo lög­reglu­menn sem hann borgaði mánaðar­lega fyrir upp­lýsingar.

„Ég var á sínum tíma með tvo lög­reglu­menn sem ég borgaði alltaf pening mánaðar­lega og þeir gáfu mér í staðinn upp­lýsingar. Ég var látinn vita ef það væri verið að hlera mig eða ef eitt­hvað sér­stakt var í gangi í minn garð. Ég var látinn vita ef ég þyrfti að fara var­lega.

Sam­skiptin áttu sér stað í gegnum ó­skráða síma sem var síðan hent. Ég borgaði þeim í peningum sem ég skildi eftir á á­kveðnum stað. 100 þúsund krónur á mánuði. En ég tek það fram að ég er hand­viss um að lang­flestir lög­reglu­menn séu mjög gott og heiðar­legt fólk, sem vinnur vinnuna sína af heilindum. En eins og í öllum stéttum er mis­jafnt fólk innan um.“

Hann lýsir því í þættinum hvernig hann hafi versnað til muna sem glæpa­maður eftir að hann fór fyrst í fangelsi.

„Ég byrjaði frekar seint í fíkni­efnum miðað við fé­laga mína. Ég var 18-19 ára þegar ég byrjaði að nota spítt, en þá voru margir í mínum vina­hóp löngu byrjaðir og margir komnir í að sprauta sig. Ég var búinn að fremja mjög mikið af minni glæpum þegar mér var stungið í fangelsi í fyrsta sinn. Bæði alls konar inn­brotum og þjófnaði og mikið af slags­málum. 1997 fór ég í fyrsta sinn í fangelsi fyrir inn­brot, skjala­fals, þjófnaði, líkams­á­rásir og fleira.

Þegar ég horfi til baka sé ég hvernig ég varð í raun mun for­hertari og verri glæpa­maður eftir að hafa setið inni. Ég fer inn í fangelsið sem smá­krimmi og slags­mála­hundur, en kem í raun út sem full­mótaður glæpa­maður. Ég fékk sam­bönd inni í fangelsinu og lærði af þeim sem sátu inni og eftir að ég kom út byrja ég strax að flytja inn fíkni­efni og varð mun skipu­lagðari í mínum glæpum.

Vonandi er þetta búið að breytast, en á þessum tíma var Litla Hraun á­kveðinn glæpa­skóli og ég hef alltaf sagt að ungir glæpa­menn eigi ekki heima með eldri glæpa­mönnum í sama fangelsi.“

Upp­lifði ekki af­leiðingar

Ann­þór segir að af­brota­hegðun hans hafi byrjað strax í barn­æsku.

„Ég endaði á ung­linga­geð­deild 11 ára og ef­laust hefði ég fengið allar greiningarnar í bókinni, en það var ekki þekkt þá eins og í dag. En ég var sendur þangað eftir að hafa verið rekinn úr Vestur­bæjar­skóla fyrir að kýla skóla­stjórann þegar ég var ellefu ára.

Þegar maður horfir til baka er náttúru­lega aug­ljóst að hegðun mín var gífur­lega ó­eðli­leg stras í barn­æsku,” segir Ann­þór. Hann segist ekki hafa upp­lifað neinar af­leiðingar.

„Ég er sá eini sem heiti þessu nafni á Ís­landi og nafnið mitt vekur því strax hug­renningar­tengsl hjá fólki. Ég man eigin­lega ekki eftir mér öðru­vísi en að vera byrjaður að brjóta af mér. Mamma mín vildi allt fyrir mig gera og ég fékk aldrei neinar af­leiðingar fyrir gjörðir mínar. Ég var strax í barn­æsku orðinn rosa­lega frekur og það var alveg sama hvað frekju­dósin vildi, hún fékk það.

Ég var byrjaður að berja hina krakkana í sand­kassanum á rólo af því að ég vildi allar skóflurnar og svo hélt þetta bara á­fram þegar ég byrjaði í skóla.

Ég var alltaf fljótur til að kýla og lemja krakka af því að ég fékk ekki það sem ég vildi eða eitt­hvað var ekki eins og ég vildi. Ég man eftir fyrstu skiptunum þegar mamma var kölluð niður í skóla af því að ég hafði lent í slags­málum og hún sagði bara: „Nei hann Ann­þór Kristján gerir ekki svo­leiðis.“

….og í fyrsta skipti sem löggan kom með mig blind­fullan heim á barns­aldri þá rak mamma lög­reglu­mennina bara í burtu og sagði þeim að vera ekki að angra son sinn og pantaði svo pizzu fyrir mig. Það hefði verið gott fyrir mig að fá ein­hverjar af­leiðingar af gjörðum mínum eftir á að hyggja, en ég veit náttúru­lega ekki hvort það hefði komið í veg fyrir að ég hefði orðið glæpa­maður.

Það hefðu vel getað komið til aðrar á­stæður fyrir því að ég hefði farið þessa braut, en þetta hjálpaði í það minnsta klár­lega ekki til. En auð­vitað get ég engum kennt um það öðrum en sjálfum mér hvernig ég hef lifað lífi mínu.“

Skilur að margir vilji ekki veita sínum líkum séns

Þegar talið berst að skipu­lagðri glæpa­starf­semi er Ann­þór harður á því að margt sé öðru­vísi hér á landi heldur en að fólk telji út frá um­fjöllun fjöl­miðla.

„Lög­reglu­yfir­völdum og fangelsis­yfir­völdum vantar fé og það virðist þurfa að ala á því að hér sé mjög skipu­lögð glæpa­starf­semi, pólska mafían, litháíska mafían, Hells Angels, Banditos og fleira, til þess að fá meira fjár­magn.

Á sama tíma eru bara allir í fangelsunum að spila saman körfu­bolta og skilja ekki hvað er verið að tala um. Auð­vitað væri best að fjár­magna þessa mála­flokka bara betur án þess að þurfa að rök­styðja það með þessum hætti. Það eru ekki ein­hverjar mafíur sem eiga hinn og þennan markað í glæpum á Ís­landi.

Í mínum huga er mafía eitt­hvað þar sem þú ert með stétta­skiptingu og mikið skipu­lag. Þó að það komi ein­hver glæpa­gengi hingað, þá þýðir það ekki að hér séu er­lendar mafíur búnar að festa rætur.“

Ann­þór segist skilja það að margir séu ekki til­búnir til að gefa mönnum eins og honum séns, jafn­vel þó að þeir hafi þegar af­plánað sína dóma.

„Ég á mína for­sögu og það er full­kom­lega eðli­legt að sam­fé­lagið taki mann ekki í sátt strax, jafn­vel þó að maður sé búinn að af­plána dóm. Ég er að fara að út­skrifast úr byggingar­fræði úr Há­skóla Reykja­víkur um ára­mótin og er búinn að vera réttu megin við lögin í tals­verðan tíma, en ég skil það vel að það séu ekki allir til­búnir að taka mann í sátt.

Heilt yfir finnst mér fólk taka mér vel og fólk hugsar al­mennt að batnandi fólki sé best að lifa, en ég er búinn að gera allt of mikið af mér til að geta bætt upp fyrir það allt. Svo virkar þetta líka þannig að minni manns verður val­frjálst þegar maður er í svona miklu rugli og ég man ekki nema hluta af því sem ég hef gert. En ég hef brotið á gríðar­lega mörgum og veit að í mörgum til­vikum dugar ekki að biðjast af­sökunar.

En ég vona að það sem ég er að gera í dag muni smátt og smátt með tímanum gera það að verkum að ég verði þekktur fyrir annað en bara glæpi.“

Í þættinum gefur Ann­þór inn­sýn inn í hugar­heim ein­stak­lings sem leiðist á þessa braut í lífinu. Hann segir margt við glæpa­heiminn á Ís­landi öðru­vísi en fólk heldur.