Leikkonan Anne Heche er í lífshættu eftir bílslys sem átti sér stað í Kaliforníufylki í gær.

Bifreið var ekið inn hús í Mar Vista-hverfinu í Los Angeles, með þeim afleiðingum að bæði kviknaði í bílnum og húsinu. Samkvæmt CNN var konan sem ók bílnum umrædd leikkona. Talið er að enginn annar hafi slasast.

Greint hefur verið frá því að bílnum hafi verið ekið á ofsahraða, og er nú myndband í dreifingu á samfélagsmiðlum sem á að sýna það. Líkt og áður segir endaði bíllinn í húsi og olli það eldsvoða og á Heche að hafa fengið alvarleg brunasár.

Heche vakti fyrst athygli fyrir leik sinn í sápuóperunni Another World. Í kjölfarið lék hún í kvikmyndum á borð við Donnie Brasco, Six Days Seven Nights, og Wag the Dog.

Hún átti í ástarsambandi með spjallþáttasjórnandanum Ellen DeGeneres í lok tíunda áratugarins, en hún hefur síðar lýst því að opinberun sambandsins hafi haft neikvæð áhrif á ferill sinn. Til að mynda hafi hún fengið talsvært færri tækifæri á hvíta tjaldinu en áður en tilkynnt var um samband þeirra.

Síðustu ár hefur hún þó fengið frekari verkefni í sjónvarpsþáttaseríum á borð við The Brave, Quantico, og Chicago P.D.