Banda­rísku leik­konunni Anne Heche er enn haldið sofandi í öndunar­vél eftir al­var­legt um­ferðar­slys í Los Angeles á föstu­dag. Á­stand hennar er metið al­var­legt, að því er fram kemur í frétt Reu­ters.

Anne var undir stýri bif­reiðar sem ekið var inn á hús í Mar Vista-hverfinu í Los Angeles á föstu­dag, en talið er að leik­konan hafi verið undir á­hrifum þegar slysið varð. Eldur kom upp í bif­reiðinni og tók það tals­verðan tíma að ná henni út.

Í frétt Reu­ters er haft eftir lög­reglunni í Los Angeles að til­drög slyssins séu enn til rann­sóknar. Michael McConnell, tals­maður leik­konunnar, segir að Anne hafi verið haldið sofandi síðan hún komst undir læknis­hendur á föstu­dag. Segir hann að á­stand hennar sé mjög al­var­legt og lungun í henni hafi farið illa. Þá muni hún þurfa að gangast undir að­gerðir vegna bruna­sára.

Heche vakti fyrst at­hygli fyrir leik sinn í sápu­óperunni Anot­her World. Í kjöl­farið lék hún í kvik­myndum á borð við Donni­e Brasco, Six Days Se­ven Nights og Wag the Dog svo ein­hverjar séu nefndar.