„Það eru þó nokkur ár síðan ég var á Kúbu. Þegar ég kom heim var ég í sjokki vegna þess að þótt upplifunin hafi verið mjög ævintýraleg þá fannst mér erfitt að vinna myndirnar sem ég hafði tekið þar því ég vorkenndi fólkinu svo mikið. Þarna er svo mikil fátækt. Áður hafði ég aðallega séð glansmyndir af Kúbu, fallegar túristamyndir. Eftir nokkurn tíma fór ég svo að hugsa aftur til fólksins á Kúbu og myndanna sem ég tók þar og hafði ekkert gert við. Þessi hugsun ágerðist þegar heimurinn lokaðist vegna Covid og þá ákvað ég að gera þessa sýningu,“ segir Katrín.

Ljósmyndirnar eru allar frá Havana og flestar þeirra eru af byggingum, að utan og innan. Nokkrar ljósmyndirnar sýna fugla í búrum, en þeir eru aðalmyndefnið í nýju ljósmyndabókinni. „Á Kúbu tók ég eftir því að nánast allir voru með fugla í búrum. Ég sá skrautfugla heima hjá fólki, á veitingastöðum og úti á götu. Það er eins og stöðutákn að vera með syngjandi fugla í búri. Ég sá ákveðna samsvörun milli fuglanna sem eru læstir inni í búri og fólksins sem er innilokað á eyjunni,“ segir hún.

Katrín vinnur ljósmyndirnar töluvert. „Ég breyti litunum í ljósmyndunum, þannig verður myndefnið meira framandi. Ég hef notað þessar aðferðir áður, til dæmis á sýningunni Gróður í Berg Contemporary, þar sem ég sýndi meðal annars fjólublá pálmatré. Ég verð fyrir áhrifum frá þeim stöðum sem ég er á hverju sinni og ég reyni að fanga tilfinningar sem ég upplifi. Þegar áhorfandinn kemur inn á sýninguna í Hafnarborg langar mig að hann fari í annan heim og upplifi eitthvað nýtt,“ segir hún.

Katrín hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis. Þá hafa verk hennar verið sýnd á samsýningum víða. Fjórar bækur hafa áður verið gefnar út með ljósmyndum Katrínar og verður bókin Songbirds, sem kemur út samhliða sýningu hennar í Hafnarborg, sú fimmta.

Listamanns- og sýningarstjóraspjall verður laugardaginn 27. nóvember klukkan 14.

Katrín breytir litunum í ljósmyndunum og þannig verður myndefnið meira framandi.