„Það andaði margur maðurinn léttar um miðja vikuna þegar það var opinberað að Brynjar Níelsson væri kominn með vinnu. Ekki var allur sá blástur vegna þess að menn væru að samfagna fyrrverandi þingmanni,“ segir Guðmundur Brynjólfsson.

„Heldur höfðu menn óttast það mjög, hjá ólíklegustu fyrirtækjum og nánast öllum stofnunum, að Brynjar Níelsson yrði ráðinn „til þeirra“. Annálaður letinginn.“

Brynjar fékk vinnu hjá Jóni Gunnarssyni sem fær að vera dómsmálaráðherra í einhverjar vikur áður en næsti dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins verður klappaður upp. Ólíklegt þykir að Brynjar muni létta Jóni störfin en það er ekki aðalatriðið, heldur hitt að núna getur Brynjar gert ekki neitt án þess að þjóðin fylgist með því í beinni útsendingu.

Annars virðist ríkja mikil bjartsýni hjá Sjálfstæðismönnum hvað varðar dómsmálaráðuneytið, þeir telja nóg að útnefna tvo dómsmálaráðherra strax við stjórnarmyndun, en eins og dæmin sanna þurfa þeir aldrei minna en það fyrir eitt kjörtímabil og ef fyrirhyggjan hefði fengið að ráða hefði ekki verið vitlaust hjá þeim að útnefna þann þriðja – og þá jafnvel Brynjar, sem er þeim kostum búinn að gera ekki neitt, og þá heldur ekki neitt af sér.“