Anna Theodóra Rögnvaldsóttir, handritshöfundur og leikstjóri, er látin 69 ára að aldri. Hún var fædd 15. apríl 1953.

Meðal verka Önnu var fyrsta glæpaþáttaröðin sem framleidd var á Íslandi, Allir litir hafsins eru kaldir. Hún samdi handrit og leikstýrði þáttunum sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu árið 2006. Þar áður hafði hún skrifað og leikstýrt stuttmyndnum Hlaupári (1995) og Köldu borði (1998) og leiknu heimildarmyndunum Sögu húss: Aðalstræti 16 (1992) og Sögu húss: Austurstræti 22 (1994).

Anna var einnig leikmyndahönnuður myndanna Með allt á hreinu (1982) og Inguló (1992) og starfaði sem leikmyndahönnuður á RÚV og Stöð 2 á níunda áratugnum. Hún var meðstofnandi og meðeigandi kvikmyndafélagsins Gjólu sem framleiddi Inguló og Draumadísir (1996). Hún stofnaði kvikmyndafélagið Ax ehf. árið 1989 ásamt bróður sínum Ólafi og framleiddi félagið meðal annars áðurnefnd höfundarverk hennar.

Myndin er tekin af Önnu í maí árið 1999.

Anna fór á menntaskólaárum sínum til náms í Bandaríkjunum þar sem hún lagði fyrir sig heimspeki og myndlist. Hún nam síðar kvikmyndagerð við London International Film School, þaðan sem hún útskrifaðist árið 1985. Næstu áratugi sótti hún ýmis námskeið í handritagerð og kvikmyndaframleiðslu bæði hérlendis og erlendis. Hún kenndi handritagerð við Kvikmyndaskóla Íslands og skrifaði kennslubókina Ritun kvikmyndahandrita: praktísk handbók um efnið. Hún vann einnig að félagsmálum kvikmyndafólks á Íslandi.

Anna átti soninn Úlf Chaka Karlsson með Charles Dalton. Úlfur var fæddur 5. apríl 1976 og vann sem myndlistar- og tónlistarmaður. Hann var söngvari hljómsveitarinnar Stjörnukisa, útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2003 og vann sem hönnuður svo eitthvað sé nefnt. Úlfur lést árið 2007 eftir löng veikindi.

Hér að neðan má sjá stiklu úr þáttunum Allir litir hafsins eru kaldir.