Í gær var valin í annað sinn Háskólakona ársins. Í ár hlaut heiðurinn tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir. Anna lauk BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistara- og doktorsgráðu í tónsmíðum frá University of California í San Diego. Í dag gegnir hún stöðu staðartónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Fyrsta hljómplata hennar, Rhízōma, kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Innova Recordings haustið 2011. Önnur hljómplata Önnu, Aerial, var gefin út af Deutsche Grammophon í nóvember 2014. Þriðja portrait plata Önnu, In the Light of Air, kom út árið 2015.Fjórða hljómplatan með verkum eftir Önnu, AEQUA, er væntanleg í nóvember 2018 í útgáfu Sono Luminus. Platan inniheldur valin kammerverk frá síðustu árum í flutningi International Contemporary Ensemble. 

Í apríl síðastliðnum stýrði Esa-Pekka Salonen New York Fílharmoníunni í frumflutningi á verkinu Metacosmos sem Anna skrifaði fyrir hljómsveitina. Verkið verður síðan flutt af Berlínar Fílharmoníunni, Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Helsinki í janúar og febrúar á næsta ári.  

Í tilkynningu frá Félagi Háskólakenna kemur fram að Anna hafi á ferli sínu m hlotið fjölda verðlauna. Þar má nefna Tónlistarverðlaun Norðurlandsráðs, Kravis Emerging Composer Prize frá New York Filharmoníunni og tvenn verðlaun frá Lincoln Center á þessu ári, Emerging Artist Award og The Martin E. Segal Award.

Verk Önnu eru flutt reglulega víðsvegar um heiminn og hafa hljómað á tónleikastöðum og hátíðum í Bandaríkjunum, í Evrópu og Asíu.  

Hér að neðan má sjá myndskeið sem tekið var í gær af Önnu og birt á Facebook-síðu Félags Háskólakvenna. 

„Ég er alveg gríðarlega stolt af þessari viðurkenningu. Það er ótrúlegt að tilheyra svona stórum og flottum hópi háskólakvenna á Íslandi,“ segir Anna í myndskeiðinu sem segir að hún sé ánægð með að hafa hlotið viðurkenninguna og að listir skyldu hafa fengið athygli í því samhengi. 

Tilgangur að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna

Tilgangur þess að velja Háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins.

Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að stjórn Félags háskólakvenna telji Önnu vel að titlinum komna.

„Anna uppfyllir öll fjögur skilyrðin sem sett eru fyrir valinu. Fyrsta skilyrðið uppfyllir hún, enda með doktorspróf í tónsmíðum. Það er óhætt að fullyrða að framlag hennar til samfélagsins skari fram úr enda er hún eitt virtasta tónskáld samtímans á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað. Án efa er hún brautryðjandi á sínu fagsviði og síðast en ekki síst er Anna góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur. Hún hefur sýnt í verki hverju það getur skilað að hafa góða menntun í farteskinu samhliða því að leggja rækt við hæfileika sína.“

Horft til fjögurra atriða við val

Háskólakona ársins var í fyrsta skipti valin í fyrra. Þá var valin dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, en hún lauk BA gráðu í sálfræði við Háskóla Íslands og doktorsgráðu í klínískri faraldsfræði við Karolinska Institutet í Svíþjóð. Unnur Anna er ein þeirra sem vinnur að rannsókn á samspili erfða og heilsufarslegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla.

Fram kemur í tilkynningu frá Félagi Háskólakvenna að við valið sé horft til fjögurra atriða. Hún þurfi að vera útskrifuð með háskólagráðu, hvort framlag hennar til samfélagsins þyki hafa skarað fram úr, hvort hún sé brauðryðjandi á sínu sviði og hvort hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur.