Angelina Jolie, sem leikur í kvikmyndinni Maleficent: Mistress of Evil sem var frumsýnd í London á fimmtudag, sagði við það tilefni að kvenkyns karakterar í kvikmyndum og í sjónvarpi ættu ekki að þurfa endilega að vera líkamlega sterkar til þess að teljast sterkir einstaklingar.

„Mér hefur svo oft fundist þegar verið er að segja sögu sterkrar konu, að hún sé talin sterk því hún sigrar einhvern karlmann, eða er eins og karlmaður eða þá að hún finni það út að hún þurfi ekki karlmann í sitt líf,” sagði Jolie við blaðamenn við frumsýningu myndarinnar.

Hún vísar til hlutverksins sem hún leikur í Maleficent: Mistress of Evil og Áróru prinsessu, sem Elle Fanning leikur. „Við þurfum báðar á karlmönnum að halda. Við elskum þá og við lærum af þeim.”

„Mér finnst það mikilvæg skilaboð til ungra stúlkna, að finna sinn kraft en að virða og læra af karlmönnunum í kringum sig. Við erum með sterkar konur í myndinni, en sá karakter sem hefur ill áform og þarf að taka út, er líka kona. Við erum að sýna alls konar konur í myndinni, en erum einnig með frábær karlhlutverk. Ég vil leggja áherslu á það líka.”