„Bleyjulaust uppeldi snýst um að fylgjast með barninu, læra inn á það,“ sagði Vilhjálmur Andri Einarsson, einnig þekktur sem Andri Iceland, í þættinum Bítið á Bylgunni í morgun þar sem hann kynnti námskeið í þar sem foreldrum er kennt að sleppa því alfarið að setja bleyjur á börn, allt frá fæðingu.

Andri tekur fram að hann sé ekki sérfræðingur í bleyjulausu uppeldi, það sé frekar eiginkona hans, Tanit. Þau eiga eitt barn saman en fyrir á hann tvö börn. „Með minni fyrrverandi þá hætti önnur stelpan á bleyju tveggja ára, hin tveggja og hálfs, þetta voru rifrildi um hver ætti að taka kúkableyjuna, komið að þér núna, útbrot eftir að hafa verið með kúkableyjurnar á sér. Talandi um sprengjurnar upp á bak, ég er búinn að eyðileggja ansi margar nýjar samfellur,“ sagði Andri.

Bleyjan notuð til vara

Hann segir að bleyjan sé notuð til vara í bleyjulausu uppeldi. „Ekki sem klósett. Það þarf að hlusta á barnið, það er að tala við þig. Það lætur þig vita með einföldum merkjum sem þú lærir inn á, á mjög einfaldan hátt,“ sagði Andri. „Í fyrsta sinn, þá tók ég eftir merkjunum, fór með hana inn á klósett og hún bara pissaði og kúkaði. Ég bara trúði þessu ekki. Svo skolaði ég með vatni og setti sömu bleyjuna. Hún var með sömu bleyjuna, allan daginn.“

Andri segir að þetta sé ekkert nýtt, mörg þjóðfélög víða um heim noti ekki bleyjur. „Það er rosalega einfalt að sjá þessi merki. Þú ert ekki alltaf að hlaupa með það á klósettið, þú ert bara að fylgjast með því,“ sagði hann. „Barnið vill ekki vera með kúkinn á sér, það er nokkuð ljóst.“

Mikla þetta fyrir sér

Hann segir marga mikla þetta fyrir sér. „Við búum í streitusamfélagi sem við búum til og tökum þátt í. Við fæðumst inn sem leikmenn, við ráðum því hvernig við leikum leikinn, en við tökum hann þannig að það sé alltaf svo brjálað að gera, það er aðalvandamálið hjá okkur öllum. Notum þá bleyjuna sem klósett.“