Andri Snær Magnason hlýtur hin virtu ítölsku verðlaun Tiziano Terzani International Literary Prize, sem eru nú veitt í sautjánda skiptið, fyrir bók sína Um tímann og vatnið.

Dómnefndin segir: „Andri Snær Magnason minnir okkur á að líf okkar og tilvera er náttúrunni háð, og hún biður okkur að fylgja sínum takti. Prófraun okkar er fordæmalaus: hún snýst um að bjarga heiminum. Og það hratt. Við getum ekki hunsað þá ábyrgð sem við berum gagnvart jörðinni okkar og kynslóðunum sem koma á eftir okkur. Um tímann og vatnið er neyðarkall til heimsbyggðarinnar, skrifað á auðskilinn, áhrifaríkan og nákvæman hátt sem dýpkar skilning okkar á stærð vandamálsins.“

Terzani-verðlaunin voru fyrst afhent árið 2004 og heiðra minningu ítalska blaðamannsins og rithöfundarins Tiziano Terzani, sem var þekktur fyrir alþjóðlegt sjónarhorn sitt og ferðasögur sem hafa selst í milljónum eintaka um allan heim. Verðlaunin verða afhent í byrjun júlí á Vicino/Lontano hátíðinni í Udine á Ítalíu.