Andri Freyr Viðarsson þurfti að ganga aðeins á eftir sínum hógværa vini Kristjáni Kristjánssyni, KK, til þess að sannfæra hann um að löngu tímabært væri að hann gæfi út safnplötu.

Það tókst þó á endanum og eftir smávægilegar tafir og hnökra í framleiðsluferlinu kemur tvöfalda vínilplatan KK – Árin 1985-2000 loksins út á föstudaginn, 30. apríl. Sögulegt í meira lagi og löngu tímabært þar sem þrátt fyrir langan og farsælan feril hefur KK ekki gefið tónlist út á vínil áður.

„Við náttúrlega vinnum saman. Eða þannig séð. Við erum hérna á sömu deild á RÚV. Þannig að við spjöllum mikið saman við kaffivélina og svona og svo höfum við náttúrlega líka ferðast saman til Bandaríkjanna við þáttagerð og erum bara fínir félagar,“ segir Andri Freyr og bætir því við að í raun sé safnplata með KK svo góð hugmynd að furðu megi sæta að þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu síðan. „Þetta er alveg fáránlegt.“

Hógvær í dauðafæri

Andri segist sjálfur safna plötum og hlusta mikið á þær og hafa áttað sig á að það vantaði tilfinnanlega KK í safnið. „Og ég spurði sem sagt KK hvort hann hefði aldrei pælt í að gefa út vínilplötu. Vegna þess að Lucky One kemur þegar geisladiskurinn er að taka yfir og vínillinn á útleið,“ segir Andri um stöðuna þegar KK kvaddi sér fyrst hljóðs fyrir alvöru fyrir 30 árum síðan.

„Ég spyr hann hvort það sé ekki dauðafæri að gera einhverja flotta útgáfu af bestu lögunum og hann náttúrlega er svo hógvær og fannst hann ekki vera alveg viss um hvort hann ætti til nóg í það.“

Andra fannst KK full efins en eftir að hafa bent honum á að Bubbi væri örugglega búinn að gera svona eins og fimm „best of“-plötur fór KK að hallast í rétta átt og var á endanum til í þetta. Með skilyrðum þó.

Andri Freyr talaði KK inn á að gefa út safnplötu. Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli

„Hann sagðist ekki alveg nenna að standa í þessu sjálfur en ef ég myndi nenna að gera þetta með honum þá gæti hann alveg skoðað þetta. Og ég var auðvitað til í það.“

Þegar KK var klár setti Andri sig beint í samband við Reyni Berg Þorvaldsson í Reykjavik Record Shop sem var heldur betur til í að gefa plötuna út. „Honum fannst þetta bara borðleggjandi dæmi. Hann er bara alltaf í einhverju svona fríkí stöffi og sagði að þetta yrði það auðseljanlegasta sem hann hefði gert.“

Þrír mánuðir af tónlist

Eins og við var að búast átti Andri ærið verk fyrir höndum þegar kom að lagavalinu. „Kristján kom og henti í mig öllum diskunum sínum og ég spurði hvort hann ætti ekki líka eitthvað auka. Kannski einhverjar demo-útgáfur eða eitthvað óútgefið.

Þá kom hann sko bara með harðan disk með einhverjum þremur mánuðum af efni sem hefur ekki heyrst og það gerði ferlið aðeins flóknara fyrir mig þannig að ég þurfti að hlusta bara á KK í svona eins og tvo mánuði stanslaust og fann náttúrlega fullt af góðu stöffi.“

Andri segir aðspurður að valkvíðinn hafi vissulega verið mikill. „Þetta var rosalega erfitt og ég var með mörg lög í „kannski“ bunkanum sem voru að fara inn og út. En eins og ég segi þá var ég bara að hlusta stanslaust á KK í tvo mánuði og þetta var bara alltaf að breytast eiginlega fram á síðustu stundu.“

Og ekkert orðinn leiður á honum?

„Nei, það er ótrúlegt. Það er alveg ótrúlegt,“ svarar Andri fullur af eldmóði og er til í meira. „Ég hlakka rosalega til að fá plötuna í hendurnar og geta sett þetta á fóninn. Að hlusta á KK á vínil í alvöru græjum.“

Óhjákvæmilegt framhald

Andri Freyr bendir einnig á að safnplatan sé ekki síst happafengur fyrir aðdáendur KK þar sem á henni megi finna fáheyrðar, gamlar upptökur. „Inn á þessa plötu ratar náttúrlega efni af blúskassettum sem hann var að „böska“ með á sínum tíma í Skandinavíu. Ég fékk alveg þrjár þannig spólur hjá honum sem eru alveg geggjaðar.

Og svo náttúrlega þegar öllu var á botninn hvolft þá var þetta orðið allt of mikið af lögum sem hann á og katalógurinn svo ógeðslega góður þannig að við ákváðum bara að hafa þetta frá 1985 til 2000 og taka svo kannski bara 2000 til 2020 á næsta ári. Eða þarnæsta.“