Söngleikjaskáldið Andrew Lloyd Webber hataði kvikmyndaútgáfuna af söngleik sínum Cats svo mikið að hann fékk sér hund. Þetta kemur fram í nýju viðtali í Variety þar sem hinn 73 ára Webber dregur ekkert af skoðunum sínum á kvikmyndinni.
„Cats var út úr kortinu slæm. Það var enginn skilningur á því hvað fær tónlistina til að tifa. Ég horfði á þetta og hugsaði bara ‚Ó, Guð, nei‘,“ segir Webber.
Cats, sem er einn vinsælasti söngleikur sögunnar, var aðlagað að kvikmyndaforminu árið 2019 af leikstjóranum Tom Hooper. Myndin fékk varð hins vegar aðhlátursefni gagnrýnenda og gekk mjög illa í sölu, græddi til að mynda innan við 30 milljónir dollara í Bandaríkjunum.
Webber þótti myndin raunar svo slæm að hann fór og keypti sér hund:
„Þetta var í fyrsta sinn á mínum 70 plús árum að ég fór út og keypti mér hund. Þannig að það eina góða til að koma úr þessu var litli Havanese hundurinn minn,“ segir hann.
Að sögn Webbers varð hann svo háður hundinum í gegnum Covid faraldurinn að hann fann leið til að taka hann með sér í flug til New York. Lét hann skrá hundinn sem stuðningsdýr svo hann þyrfti ekki að láta hann frá sér.
„Ég skrifaði þeim og sagði að ég þyrfti að hafa hann með mér öllum stundum vegna þess að ég er tilfinningalega skemmdur. Flugfélagið skrifaði til baka og sagði ‚ Geturðu sannað að þú þurfir hann virkilega?‘ Og ég sagði ‚Já, sjáið bara hvað Hollywood gerði við söngleikinn minn Cats. Síðan kom samþykkið til baka með athugasemdinni ‚Ekkert læknisvottorð nauðsynlegt‘.“
Webber hefur reyndar sjaldnast verið ánægður með kvikmyndaútgáfur söngleikja sinna. Hann tjáði til dæmis Variety að hann væri ekki aðdáandi útgáfunnar frá 1973 af Jesus Christ Superstar og sagði að 2004 útgáfan af The Phantom of the Opera hefði skartað kolröngum leikurum. Eina myndin sem hann virðist vera fullkomlega sáttur við er 1996 útgáfan Evita, aðallega vegna þess hversu ánægður hann er með flutning Madonnu í titilhlutverkinu.
„Allt til þessa dags tel ég að enginn hefði getað gert það betur,“ segir hann.