Andrés Bretaprins á að hafa lagt á ráðin ásamt Díönu prinsessu heitinni og fyrrverandi eiginkonu sinnu, Söru Ferguson, um að sjá til þess að Karl yrði ekki konungur. Í staðinn hefði sonur Karls, Vilhjálmur Bretaprins, átt að taka við krúnunni, og Andrés átt að verða ríkisstjóri að því gefnu að Vilhjálmur væri ekki orðinn átján ára þegar Elísabet Bretadrottning félli frá.

Auk þess á Andrés að hafa reynt að sjá til þess að Karl myndi ekki giftast Kamillu Parker Bowles, og á að hafa sagt móður sinni að hún væri ekki traustins verð.

Þetta kemur fram í nýrri bók um ævi Kamillu, sem Angela Levin skrifar, en hún hefur ritað fleiri bækur um líf fólks í konungsfjölskyldunni. Hún hefur upplýsingar sínar frá heimildarmanni sem á að hafa verið lengi í kringum konungsfjölskylduna.

„Andrés þrýsti mjög mikið á að Karl yrði ekki gerður að konungi þegar móðir hans myndi deyja, og í staðinn myndi Vilhjálmur taka við hásætinu,“ segir í bókinni

„Þegar Díana var á lífi, skipulagði hún, ásamt vinkonu sinni Söru og Andrési, að ýta Karli í burtu, svo að Andrés gæti orðið ríkisstjóri Vilhjálms, sem var enn þá táningur.“ skrifar Levin og bætir við „Þetta voru drungalegir og skrýtnir tímar, þar sem geðshræring varð að veruleika,“

Þetta ráðabrugg Andrésar á að hafa farið fyrir brjóstið á drottningunni, en Andrés á að hafa verið mjög ósáttur með að hafa ekki fengið tækifæri til að stjórna landinu.

Bræðurnir Andrés og Karl eiga að hafa átt í erfiðu sambandi í gegnum tíðina, en það á að hafa versnað umtalsvert þegar tengsl Andrésar við Jeffrey Epstein komu í ljós.