Ítalska sólgleraugnamerkið SOYA og íslenska listakonan og ilmvatnshönnuðurinn Andrea Maack tilkynntu um samstarf sitt á dögunum. Sólgleraugun eru einstaklega flott og koma í þremur mismunandi útgáfum.

„Ég hitti aðstandendur merkisins fyrst fyrir tilviljun úti í Mílanó. Svo heyrðu þau í mér í kjölfarið, þeim fannst Instagrammið hjá mér flott og heilluðust af merkinu mínu og hvað ég hef verið að gera,“ segir Andrea.

Andrea hafði verið aðdáandi merkisins og fylgst með því frá stofnun. Því var gaman að upplifa að aðstandendur merkisins hefðu gagnkvæman áhuga á henni og hennar hönnun.

„Þau sendu mér gleraugu úr fyrri línum til að vera með á myndum. Þá sá ég betur hvað það voru mikil gæði í sólgleraugunum og að þessi tvö merki áttu margt sameiginlegt. Þótt mitt merki sé frá Íslandi var margt líkt. Stærð fyrirtækjanna, gæði framleiðslunnar og hugmyndafræðin var allt eitthvað sem mér fannst svipað.“

Hálfu ári seinna hafði eigandinn og aðalhönnuðurinn, Matteo Pontello, samband við Andreu með samstarf í huga.

„Hann stofnaði merkið árið 2015. Hann vann áður hjá stærstu tískumerkjum heims á borð við Tom Ford, Emporio Armani, Roberto Cavalli og Celine. Hann hafði verið í gleraugnabransanum í ein 20 ár en vildi stofna sitt eigið merki út frá sinni reynslu.“

Matteo langaði að gera sólgleraugu í samstarfi við Andreu.

„Svo hann byrjar að koma með hugmyndir og þessi týpa var ein af fyrstu hugmyndunum sem hann kom með. Mér fannst þessi gleraugu túlkandi fyrir merki okkar beggja. Þau passa líka útlitslega við ilmvatnsflöskurnar frá mér, það var einmitt hans hugmynd á bak við hönnunina.“

Litunum þremur sem gleraugun prýða svipar um margt til norðurljósa, myrkurs og elds, allt sem hefur skírskotun í landið og er lýsandi fyrir það.

„Okkur fannst líka áhugavert að eins ólík og þessi lönd eru, Ítalía og Ísland, þá notum við líka oft sólgleraugu. Ég nota mikið sólgleraugu á veturna því sólin er svo sterk. Það er ákveðin menning fyrir því hérlendis þó það hljómi undarlega í fyrstu,“ segir Andrea að lokum.

Gleraugun koma í sölu á vefsíðu Andreu, andreamaack.com, í lok maí.

Matteo hannaði gleraugun með ilmvatnsflöskur úr línu Andreu í huga.
Mynd/Amy Huslerhurst
Sólgleraugun koma í þremur litum.
Mynd/Amy Huslerhurst
Andrea segist sjálf nota sólgler­augu allan ársins hring og því hafi samstarfið verið einstaklega skemmtilegt. Mynd/Amy Huslerhurst
Mynd/Amy Huslerhurst