Andrea ár 2008 í Kaupmannahöfn við undirbúning framleiðslunnar, í fyrstu flíkinni sem framleidd var undir merkinu.

Verslunin sem alla tíð hefur verið í Hafnarfirði hefur notið mikilla vinsælda og stækkað ár frá ári en að sögn Andreu Magnúsdóttur, eiganda var það af praktískum ástæðum að Hafnarfjörður varð fyrir valinu en upprunalega hugmyndin var að vera með vinnustofu og vefverslun. „Hafnfirðingar tóku svo vel á móti okkur að það þróaðist fljótlega þannig að vinnustofan flutti annað og verslunin var stækkuð,“ segir Andrea.

Andrea hefur staðið vaktina á vinnustofu og í verslun í áratug.

Merkinu hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg og þurfti að stækka við sig húsnæðið á síðasta ári þegar verslunin flutti af Strandgötu á Norðurbakkann í nýtt og stærra húsnæði og segist Andrea hvergi annars staðar vilja vera.

"Tímamótin leggjast vel í mig og ég er virkilega stolt af okkur enda ekkert sjálfgefið að ná þessum aldri í þessum bransa," segir Andrea. "Velgengnina þakka ég aðallega dugnaði og vinnusemi og frábæru teymi. Við byrjuðum varlega og framleiddum tvær flíkur og svo þegar þær voru seldar nýttum við peninginn í næstu framleiðslu og svo koll af kolli. Við höfum reynt að safna fyrir öllu sem við þurfum en ekki tekið lán og þannig verið frjáls sem er lykillinn að því að geta skapað.

Fyrir mína parta þá er minn helsti styrkur þrjóskan og þrautseigjan en með þetta tvennt að vopni held ég áfram á meðan mér finnst gaman."

Andrea og hennar fólk ætlar að fagna með viðskiptavinum í dag frá klukkan 17 til 20 og verður boðið upp á 20 prósent afmælisafslátt alla helgina.