Náms- og starfsráðgjöf og Sálfræðiþjónusta Háskólans í Reykjavík (HR) gaf í lok október út rafræna bæklinga sem eiga að hjálpa nemendum skólans, og öðrum áhugasömum utan hans, til að takast á við áskoranir og viðhalda góðri andlegri líðan. Í háskólanámi skiptir miklu máli að hlúa vel að andlegu hliðinni, ekki síst þegar tekist er á við krefjandi nám samhliða hverju því sem lífið býður upp á hverju sinni, segir Eva Rós Gunnarsdóttir, sálfræðingur hjá Sálfræðiþjónustu HR. „HR hefur alltaf verið umhugað um andlega líðan nemenda og hafa náms- og starfsráðgjafar starfað við skólann frá upphafi og boðið upp á víðtæka þjónustu, meðal annars stuðning vegna andlegra þátta.“

Hún segir nemendur hafa nýtt þjónustuna vel en hafa á sama tíma verið duglega að kalla eftir sálfræðiþjónustu. „Það varð meðal annars til þess að haustið 2018 var fyrsta skrefið tekið í að bjóða nemendum upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í formi námskeiða. Haustið 2020 var svo enn stærra skref tekið en þá kem ég inn í fulla stöðu sálfræðings við skólann sem gerði okkur kleift að bjóða nemendum upp á enn fjölbreyttari þjónustu.“

Fjölbreytt þjónusta í boði

Þar sem vandi nemenda er ansi fjölbreyttur hefur skólinn lagt áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu segir Eva. „Á undanförnum árum höfum við meðal annars boðið upp á stuðningshópa fyrir nemendur með ADHD, stutt námskeið vegna prófkvíða og annað lengra námskeið vegna þunglyndis og kvíða. Á þessari önn bjóðum við svo í fyrsta sinn upp á námskeið sem snýr að auknu sjálfsöryggi í námi.“

Skólinn hefur einnig haldið fjölbreytta viðburði sem hafa þann tilgang að vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og kynna árangursríkar leiðir til að auka vellíðan. „Þar má fyrst nefna geðheilbrigðisvikuna Mót hækkandi sól sem hefur verið haldin árlega síðastliðin fimm ár við góðar undirtektir. Núna í október stóð HR svo fyrir andlegum heilsudegi undir yfirskriftinni Láttu þér líða vel, þar sem búinn var til vettvangur fyrir ýmis samtök, félög og fyrirtæki til að kynna hvers konar úrræði sem þau bjóða upp á. Í upphafi síðasta skólaárs héldum við einnig svokallaða Fræðsluviku þar sem við streymdum örfyrirlestrum daglega og kynntum aðferðir sem eru til þess fallnar að auka velgengni og vellíðan í námi.“

Málefni sem skipta máli

Hún segir skólann einnig reyna að bjóða upp á reglulega fyrirlestra og láta þá taka á þeim málefnum sem skipta máli hverju sinni. „Í því samhengi má nefna fyrirlestur sem snéri að námi og líðan í heimsfaraldri og svo höfum við einnig nýlokið fyrirlestraröð í aðdraganda prófa sem hafði þann tilgang að hvetja nemendur til að hlúa að andlegu hliðinni á þeim krefjandi tímum sem prófatíð er. Samhliða fyrirlestraröðinni gáfum við út fjóra ólíka fræðslubæklinga þar sem tekin voru saman atriði sem eru þekkt fyrir að hafa jákvæð áhrif á líðan. Að lokum verð ég svo að nefna sérstakt slökunar- og hugleiðslurými HR sem veitir nemendum og starfsfólki rými til að slaka á og róa hugann í amstri dagsins. Slíkt er nauðsynlegt í því krefjandi umhverfi sem við erum í.“

Mikil ásókn í úrræði

Eva segir að nemendur séu almennt mjög ánægðir með þá þjónustu sem skólinn bjóði upp á. „Það sést fyrst og fremst á því hversu mikil ásókn er í þau úrræði sem eru í boði. Eins og staðan er nú eigum við í raun í fullu fangi með að sinna eftirspurn en það hlýtur að segja ýmislegt.“

Eva segir þau stöðugt vera að reyna að bæta þjónustuna með líðan nemenda að leiðarljósi. „Við erum með ýmsar hugmyndir að námskeiðum og öðru á teikniborðinu sem verða vonandi að veruleika sem fyrst. Eins og staðan er nú leggjum við mikla áherslu á að ná til sem flestra og teljum við tæknina spila stórt hlutverk þar. Við höfum verið að auka fjarþjónustu og bjóðum nemendum sem eiga ekki heimangengt að koma í fjarviðtöl og einnig höfum við boðið upp á fjarnámskeið og streymt fyrirlestrum. Slík þjónusta mun vonandi bara aukast á komandi misserum. Einnig höfum við unnið að því að auka aðgengi að hagnýtu efni og má finna bæklingana okkar og upptökur af fyrirlestrum á ytri vef skólans. Þá geta nemendur, sem og almenningur, nálgast efnið hvar og hvenær sem er.“