Efnisveitan Netflix hefur gert íslensku bíómyndina Andið eðlilega aðgengilega áskrifendum sínum víða um heim. „Það er stórkostlegt að myndin okkar fái svona góða dreifingu um allan heim, þannig að ég er náttúrulega bara mjög spennt heyra viðbrögðin,“ segir leikstjórinn Ísold Uggadóttir í samtali við Fréttablaðið.

Ísold segir Netflix hafa sýnt myndinni mikinn áhuga strax eftir að hún var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í fyrra. Þá hófust samningaviðræður sem „hafa greinilega borið góðan árangur.“

Sjá einnig: Nístandi fagurt tímamótaverk

Andið eðlilega er aðgengileg notendum Netflix meðal annars í Bandaríkjunum, Mið- og Suður-Ameríku, Afríku og fjölmörgum Evrópulöndum, svo sem Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Írlandi, Austurríki, Sviss, Spáni, Ítalíu, Danmörku, Noregi og Finnlandi.  Nánast allur heimurinn er því undir þótt myndin standi íslenskum Netflix-notendum ekki til boða en hér má nálgast hana á vefleigum Símans og Vodafone.

Andið eðlilega hefur verið ausinn lofi og viðurkenningum víða um heim, á kvikmyndahátíðum sem og þar sem hún hefur verið sýnd á almennum sýningum en henni hefur verið dreift í kvikmyndahús víða um Evrópu og þá í löndum þar sem Netflix er ekki með sýningarrétt.

Sjá einnig: Baráttan á bókasafninu

Ísold fylgist ágætlega með viðbrögðum áhorfenda á netinu og segist ekki fá betur séð en að myndin „fái gott start“ en „Twitter-færni mín gerir mér kleift að njósna um umheiminn og heyra hann að hugsa. Ég gleðst bara yfir því að fólk hinum megin á hnettinum sé að pæla í verkinu okkar,“ segir hún. Það er skemmtilega flippuð tilfinning,“ segir Ísold og nefnir sérstaklega frændur okkar Íra sem virðast kunna vel að meta þessa íslensku en um leið sammannlegu sögu sem er óháð flestum landamærum.

Sjá einnig: „Hvað er málið? Trúa þau ekki að ég sé að segja satt?“

„Við höfum verið að fá sterk viðbrögð utan úr heimi, meðal annars hjá Irish Times sem setur myndina í toppsæti yfir bestu myndir sem frumsýndar eru á Netflix um þessar mundir.