Bandaríski uppistandarinn og leikarinn Amy Schumer fékk sér andlitslyftingu en lét svo leysa upp fylliefnið í kinnunum sínum þar sem hún var óánægð með útkomuna.
Schumer, sem fagnaði fertugsafmæli sínu í sumar, birti mynd af sér á húðsjúkdóma- og lýtalæknastofu Jodi LoGerfo.
„Ég prófaði að þétta húðina en þá kom í ljós að ég er alveg nógu þétt. Guði sé lof að það sé hægt að leysa þessar fyllingar upp því ég leit út eins og Malificent.“
Læknirinn útskýrði á Instagram að aðgerðin væri nokkuð einföld; hún þyrfti bara að sprauta ensíminu hýalúrónídasa í kinnarnar til að leysa upp fylliefnið.
Schumer hefur haft í nógu að snúast en í fyrra framleiddi hún sjónvarpsþætti með eiginmanni sínum, Amy Schumer learns to cook, á sjónvarpsstöðinni Food Network.
Hún leikur í kvikmyndinni The Humans, sem kom nýlega út í Bandaríkjunum og vinnur nú að nýju handriti fyrir Hulu þætti, Love, Beth, sem hún ætlar einnig að leikstýra.
Skets-þættirnir hennar, Inside Amy Schumer, sem skutu henni upp á stjörnuhimininn, fara bráðum aftur í gang eftir rúmlega fimm ára pásu.