Þeir Guolin Fang og Benedikt eru mennirnir bak við vefsíðuna. Guolin segir að hugmyndin að vefnum hafi kviknað árið 2019.

„Ég var þá meðlimur Facebook-hópsins Plokk á Íslandi. Frá byrjun hafa plokkarar verið duglegir að deila því svæði sem þeir hafa plokkað inn á Facebook. Þegar fleiri fóru að taka þátt í þeim hópi varð afar erfitt að fylgjast með hvar er verið að plokka. Því kviknaði hugmyndin að því að búa til kortavefsíðu þar sem allir geta séð hvar er búið að plokka,“ útskýrir Guolin.

„Hingað til hefur fólk verið að setja myndir inn á Facebook af Google Maps sem það hefur teiknað plokkuðu svæðin sín inn á með verkfærum eins og MS paint. Okkur fannst vanta staðlaða leið fyrir plokkara til að merkja inn svæðin sem þeir plokka.“

„Vefurinn gengur út á að auðvelda plokkurum að merkja inn svæði sem þeir hafa verið að plokka. Þannig geta aðrir plokkarar skipulagt leiðangra á önnur svæði sem ekki er þegar búið að plokka,“ segir Benedikt.

Fyrir þau sem ekki þekkja hugtakið plokk þá er það notað yfir þann verknað að fara um illa hirt svæði og þrífa þar upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til frá íbúum, framkvæmdum eða þungaflutningum innan marka sveitarfélaga, á girðingum og í skurðum á víðavangi.

Í loftið fyrir Stóra plokkdaginn

Vefurinn fór fyrst í loftið árið 2019 en vegna tæknilegra örðugleika var síðan tekin niður.

„Framfarir í tækni gerðu okkur svo kleift að endurhanna síðuna frá grunni og leysa þessi tæknilegu vandamál. Þá fór síðan aftur í loftið 21. apríl 2022 í tæka tíð fyrir Stóra plokkdaginn,“ útskýrir Guolin, en Stóri plokkdagurinn var haldinn síðasta sunnudag.

„Við fórum saman á Plokkdaginn mikla og plokkuðum rusl í Elliðaárdal,“ segir Benedikt sem er nýr meðlimur í Plokkurum á Íslandi en Guolin hefur verið meðlimur síðan 2019.

Þeir Guolin og Benedikt segja að plokkarar hafi verið duglegir að nota vefinn.

„Samkvæmt okkar talningu þá plokkuðu Íslendingar rúmlega 5 ferkílómetra af rusli yfir helgina 22.-24. apríl þegar Stóri plokkdagurinn var haldinn. Það telur rúmlega 81,5 Smáralindir eða 253,6 Laugardalshallir, svo stærðin sé sett í samhengi,“ segja þeir.

Einar Bárðarson hefur verið virkur í Plokki á Íslandi og vill koma á framfæri þakklæti til Guolin og Benedikts fyrir að koma plokkari.is í loftið.

„Þetta er ótrúlega flott hjá þeim. Umgjörðin er einföld og það er auðvelt fyrir plokkara að nota vefinn. Við skoðuðum það fyrir tveimur til þremur árum að hanna app sem gerði það sama og vefurinn, en það hefði kostað 5 milljónir, sem er eitthvað sem lítil félagasamtök ráða ekki við. Þess vegna er frábært fyrir plokkara að vera komin með þennan vef. Þú þarft ekkert að vera góður á tölvur til að geta notað hann,“ segir hann.

Skjáskot af síðunni. Grænu svæðin sýna hvar hefur verið plokkað.

Vantar forritara og hönnuði

Þeir Guolin og Benedikt leita nú að framendaforriturum og hönnuðum til að vinna með þeim að því að gera vefinn betri. Bæta upplýsingaflæðið og notendaupplifunina.

„Við erum að vinna í að gera plokkari.is að opnum hugbúnaði svo hver sem er geti tekið þátt í að gera vefinn betri fyrir plokkara á Íslandi. Það er hægt að ná í okkur í gegnum tölvupóst á annað hvort guolin19@ru.is eða benedikthth@ru.is,“ segir Benedikt.

Þeir segjast nú þegar hafa fengið ábendingar frá plokkurum um hvernig má gera vefinn betri og hafa ráðist í einhverjar breytingar út frá þeim.

„Staðan er þó klárlega sú að við þurfum fleiri hendur til að geta framkvæmt allar umbæturnar. Við hugsum um plokkari.is sem verkfæri sem allir plokkarar eiga að geta notið góðs af og þess vegna erum við alltaf mjög opnir fyrir ábendingum,“ segir Guolin.

„Að lokum langar okkur að nefna að það var heiður að fá að búa til þennan vef og að fá svona góð viðbrögð við honum. Alvöru hetjurnar eru samt þær sem gera kortið grænt!“