Hulda Hákon listakona stofnaði staðinn ásamt eiginmanni sínum Jóni Óskari árið 1997 en þau seldu fyrir nokkrum árum, Ásmundi Helgasyni og Elínu G. Ragnarsdóttur. Dóttir þeirra Ásmundar og Elínar, María Elínardóttir listakona er rekstrarstjóri staðarins í dag og hafa þau nánast engu breytt enda er morgunverðarstaður sá einni sinnar tegundar í hjarta miðborgarinnar og nýtur mikilla vinsælda.

„Við höfum nánast engu breytt, eingöngu bætt þremur réttum á matseðilinn og allar uppskriftirnar eru upprunalegar frá Huldu Hákon og Jón Óskari,“segir María og finnur mikið fyrir þakklæti föstu kúnnana sem koma ávallt til að fá sinn uppáhalds morgunverð og kaffið sem frægt er orðið á Gráa Kettinum.

Á Gráa Kettinum er meðal annars hægt að fá ekta amerískan morgunverð sem heitir Trukkurinn sem inniheldur amerískar pönnukökur með eggjum og beikoni, steiktum kartöflum, tómötum, ristuðu brauði sem bakað er á staðnum, sírópi og smjöri.

FBL Grái kötturinn 03.jpg

Trukkurinn er langvinsælasti rétturinn, vel útlátinn og er fullkomin fyrir svanga./FRÉTTABLAÐIÐ SIGTRYGGUR ARI.

Þetta er einmitt sjarminn við Gráa Köttinn en þegar Hulda Hákon og Jón Óskar fluttu heim frá Brooklyn þar sem þau bjuggu á námsárunum söknuðu þau þess að geta hvergi farið og fengið sér alvöru morgunverð með pönnukökum og tilheyrandi. „Það er leyndarmálið bak við tilurð þess að við Jón Óskar fórum út í veitingareksturinn og ákváðum að opna morgunverðarstað,“segir Hulda Hákon og bætir því jafnframt við að þau hafi lagt metnað í allar uppskriftir eins og pönnukökurnar til að ná rétta bragðinu.

Hér er á ferðinni staður sem býður upp á alvöru morgunverðarupplifun af bestu gerð sem opnar alla morgna klukkan 8.00 og er opinn til klukkan 14.00 á daginn.

FBL grai-kotturinn