Fjöldi sjálfboðaliða sinnir fjölmörgum verkefnum kringum maraþonhlaup og styttri hlaup hér á landi. Verkefnin eru ansi fjölbreytt en meðal verkefna sem þeir sinna er að manna drykkjarstöðvar, sinna brautarvörslu og passa að hlauparar fari rétta leið á brautinni. Sjálfboðaliðar taka einnig þátt í skráningarhátíðum, afhenda gögn og eru á vaktinni í búningsklefum og í töskugeymslu svo nokkur dæmi séu tekin.

Margrét Valdimarsdóttir byrjaði snemma að sinna sjálfboðaliðastarfi en hún var níu ára gömul þegar hún, ásamt fjölskyldu sinni, tók að sér að sjá um drykkjarstöð við Víkingsheimilið í Reykjavíkurmaraþoninu. „Þá forfallaðist hópur frá íþróttafélagi með stuttum fyrirvara og við vorum beðin um að taka þetta að okkur. Á þeim tíma höfðum við ekki hugmynd um að þetta yrði árlegur dagskrárliður í fjölskyldunni.“

Heppileg fjáröflun

Sem unglingur starfaði hún sem sumarstarfsmaður hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og kynntist þar enn frekar öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem tengjast hlaupunum og skipulagi þeirra. „Ég spila handbolta með ÍR og liðið mitt hefur líka starfað sem sjálfboðaliðar í Reykjavíkurmaraþoni og Miðnæturhlaupinu til þess að afla fjár fyrir ferðalögum og öðrum kostnaði síðastliðin níu ár. Auk þess hef ég setið í stjórn ÍBR síðastliðin tvö ár.“ Utan þess að spila handbolta er Margrét nýbökuð móðir og vinnur sem upplýsingaöryggisstjóri hjá Creditinfo.

Sérstök gleði

Undanfarin ár hefur Margrét helst séð um drykkjarstöðina í markinu í Reykjavíkurmaraþoninu ásamt félögum sínum í ÍR. „Þá mætum við kl. 8 um morguninn og erum vel merktar í tilheyrandi vestum. Við setjum upp borðin og fyllum þau af glösum með vatni og Gatorade. Þegar borðin eru orðin full byrjar fólkið að streyma inn. Þá þurfum við að hafa hraðar hendur og fylla á því keppendurnir eru svo ótrúlega margir og allir þyrstir. Þetta er ótrúlega skemmtileg vinna því hlaupararnir eru svo glaðir og þakklátir. Það er einhver sérstök gleði á þessum degi í kringum þennan viðburð.“

Hér er Margrét við störf á drykkjarstöð í markinu í Reykjavíkurmaraþoni árið 2014.

Góðar minningar

Hún á margar góðar minningar frá síðustu árum. „Ég man sérstaklega eftir einu skemmtilegu atviki í fyrsta hlaupinu sem ég starfaði við. Þá var ég níu ára og systur mínar voru sjö og þriggja ára. Yngsta systir mín var með snuð og í allt of stóru vesti að rétta hlaupurunum glös. Það vakti mikla lukku hjá erlendum keppendum að hitta heila fjölskyldu á drykkjarstöð, þá sérstaklega þennan yngsta sjálfboðaliða. Að loknu hlaupi fengu skipuleggjendur póst frá erlendum hlaupahópi með þökkum fyrir frábært hlaup. Hópurinn minntist sérstaklega á litlu fjölskylduna við Víkingsheimilið og sendi með mynd af okkur.“

Margt smátt gerir eitt stórt

Starf sjálfboðaliðans er mjög gefandi og skemmtilegt að sögn Margrétar og mælir hún hiklaust með því að fólk prófi það. „Við höfum öll gott af því að gefa tíma okkar og láta gott af okkur leiða. Svo er þetta bara svo skemmtilegt enda mikil gleði hjá hlaupurunum og bara tónlist og fjör út um allt.“

Hún hvetur sem flesta til að taka að sér sjálfboðaliðastarf hjá íþróttafélaginu sínu, sveitarfélaginu eða einhverjum af fjölmörgu góðgerðarfélögunum sem starfa hér á landi. „Margt smátt gerir eitt stórt og svo eru íþróttafélögin okkar og góðgerðarfélögin byggð upp á sjálfboðaliðastarfi. Okkur munar ekki um einn eftirmiðdag eða einn morgun en sjálfboðaliðar skipta sköpum í þessari starfsemi.“