Alec Baldwin segir að ferill sinn sé mögu­lega á enda eftir voða­skotið sem varð Halynu Hutchins að bana á setti kvik­myndarinnar Rust í októ­ber. Honum segir að sér gæti ekki verið meira sama, í við­tali við ABC.

Baldwin ræddi málið þar á ein­lægan hátt en þetta er fyrsta við­talið sem hann veitir eftir að slysið varð. Tökur féllu niður á myndinni í kjöl­farið og verður ekki fram­haldið.

Þar sagðist hann meðal annars ekki hafa tekið í gikkinn, heldur hafi skotið hlaupið úr byssunni eftir að hann sleppti þumli sínum af steðja byssunnar.

Þá svaraði Baldwin um­mælum leikara eins og Geor­ge Cloon­ey sem sagði eftir slysið að hann gengi sjálfur ætíð úr skugga um að ekki væri skot í þeim byssum sem hann notar.

„Fullt af fólki fannst það þurfa að leggja orð í púkk vegna slyssins sem hjálpaði ekki neitt. Ef vinnu­lag þitt er þannig að þú skoðar byssuna í hvert sinn, flott hjá þér. Flott hjá þér.“

Hann bætir við: „Mitt vinnu­lag var að treysta mann­eskjunni í starfinu.“ Þá furðaði Baldwin sig á því að raun­veru­leg kúla hefði verið í byssunni.

„Það er bara ein spurning sem þarf að svara og það er hvaðan kom byssu­kúlan?“ spurði leikarinn. „Byssu­kúla á ekki að vera ná­lægt settinu. Ég hef ekkert að fela.“

Hann segist ekki upp­lifa sem svo að þetta hafi verið sér að kenna. „Mér finnst ein­hver bera á­byrgð á því sem gerðist, en ég veit það er ekki ég. Ég gæti hafa drepið mig ef ég hefði haldið að ég bæri á­byrgð og ég segi þetta ekki af létt­úð.“

Þá lýsti Baldwin því þegar hann hitti Matt­hew Hutchins, eigin­mann Halynu. Hann sagðist hafa sagt honum að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stendur.

„Ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Hann faðmaði mig og sagðist halda að við værum í þessu saman,“ sagði leikarinn.

„Ég hugsa um það að litli strákurinn [sonur Halynu: Andros] sé orðinn móður­laus...og það er ekkert sem við getum gert til að fá hana aftur,“ sagði leikarinn tár­votur. „Ég sagði honum að ég vissi ekki hvað ég gæti sagt, ég gæti ekki lýst því hversu sár ég væri.“

Glímir þú við sjálfsvígshugsanir? Ræddu málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins