„Þetta er ákveðinn lærdómur,“ segir Petra um málið. Fjögur ár eru liðin síðan hún fékk hlébarðamunstrið prentað fyrir sig af kínverskum framleiðanda sem hún fann á textílhátíð sem hún sótti í París. Merkið hét einfaldlega „by Petra Bender“ og var því kyrfilega merkt Petru.

Petra er öllum hnútum kunnug í textíl, grafík og fatahönnun. „Þetta er risastór hátíð og þarna eru inni á milli frægustu hönnuðir í heimi. Ég hef áhuga á íþróttafatnaði og þægindi í fötum og þess vegna var ég að nota efni sem var frá framleiðanda á Ítalíu en vildi fá ákveðna endurskinsáferð í prentið mitt, sem var að finna hjá þessu fyrirtæki í Kína.“

Petra segist hafa fengið efnið í litlu magni og verkefnið gengið vel. „Og þetta var svona í fyrsta skiptið sem ég er að tala við svona risaframleiðendur. Ég man eftir því að þessi hugsun var aftast í kollinum á mér hvort að ég væri að gera þetta rétt. Hvort ég ætti að gera samninga fyrir fram.“

Petra segir ljóst að hún hefði þurft að gera það. „Og ég vissi það ekki á þessum tíma. Ég hefði átt að láta þau skrifa undir samning, en var bara ótrúlega þakklát þarna að hafa fundið framleiðanda sem var reiðubúinn að framleiða svona lítið af efni fyrir mig,“ útskýrir hún.

Svo leið tíminn og sótti Petra meðal annars námskeið í samningagerð í tískuiðnaðinum í New York í millitíðinni. „Þetta var 2020, áður en Covid fór í hámark og á þessum fyrirlestri kemur þetta einmitt upp. Samningar sem á að gera við framleiðslufyrirtæki og þarna man ég að ég hugsaði: „Ó nei, ég hefði átt að gera þetta þarna.“

Uppáhaldsverslanir Petru að selja hönnunina

„Svo bara líður tíminn og ég er bara að vafra um á netinu núna í september og svo sé ég bara hjá fataverslun í Bretlandi, sem ég fíla mjög mikið, þetta prent. Og ég hugsa bara: „Vó, þetta er alveg eins og prentið mitt.“Petra súmmaði betur inn á myndina og í ljós kom að þarna var svo sannarlega hennar eigin hönnun á ferðinni.

„Ég handteiknaði þetta prent og vann það svo í tölvunni, þannig að ég þekkti teikningarnar,“ útskýrir Petra.Þarna var á ferðinni bresk búð sem selur mikið af vörum frá Japan. „Svo tek ég eftir því að þetta er japanskt merki sem ég hafði ekki séð mikið af áður, en eitthvað aðeins,“ segir Petra. Þar er um að ræða japanska vörumerkið Needles.

„Þannig að ég er bara í sjokki og veit ekkert hvað ég á að gera. Ég leita þá uppi á netinu og sé að þeir eru að selja merkið í rúmlega 260 verslunum úti um allan heim,“ segir Petra. Þar á meðal eru hátískuverslanir eins og Barneys, Kith Paris og End Clothing.

Petra sendi framleiðandanum tölvupóst í kjölfarið en hefur engin svör fengið enn. Hún hefur leitað til lögfræðings sem hefur líka sent þeim skilaboð án árangurs.

„Þetta var í september og þá tók ég eftir því að þeir voru búnir að gera buxur og jakka með mínu prenti. Svo mánuði síðar voru þeir líka búnir að hanna jakkaföt í þessu prenti. Þá fæ ég lögfræðing í málið en ég hef ekkert heyrt.“

Jakki með mynstri Petru til sölu hjá Needles.
Instagram/Skjáskot