Polishing Iceland

***
Tjarnar­bíó
Reykja­vík Ensemble Theat­re
Company
Leikarar: Magda­lena Tworek,
Michael Richardt, Pétur Óskar
Sigurðs­son
Leik­stjóri og höfundur leik­gerðar:
Pá­lína Jóns­dóttir
Dramatúrg: Angela Rawlings
Tón­list og hljóð: Anna Hall­dórs­dóttir
Ljósa­hönnuður: Juliette Lou­ste
Búningar: Pá­lína Jóns­dóttir

Sýningin fer fram á ensku, ís­lensku og pólsku. Reykja­vík Ensemble var valinn List­hópur Reykja­víkur í byrjun árs og frum­sýndi fjöl­þjóð­legi hópurinn Polis­hing Iceland fyrr í vor, áður en hann varð frá að hverfa vegna sam­komu­banns. Sýningin er byggð á smá­sagna­safni Ewu Marcinek, um reynslu hennar sem innf lytjandi á Ís­landi, í leik­stjórn Pá­línu Jóns­dóttur, og var endur­frum­sýnd um miðjan þennan mánuð í Tjarnar­bíói.

Efni­viðurinn er svo sannar­lega á­huga­verður, enda löngu kominn tími til að raddir inn­flytj­enda fái að heyrast á fjölunum. Á­horf­endur fá inn­sýn í dag­legt amstur ó­nefndrar pólskrar konu í Reykja­vík, til dæmis ferð í hið pólska IKEA, öðru nafni Góða hirðinn, og dag­lega erfið­leika til dæmis í formi vinnu­staða­á­reitis. Til­raunir hennar með tungu­málin (öll þrjú) dýpka frá­sögnina og gefa sýningunni ljóð­rænan blæ. En upp­bygging hand­ritsins er ekki nægi­lega góð, þá sér­stak­lega byrjunin sem skellir á­horf­endum beint inn í á­fall sem skil­greinir restina af sýningunni, en er ekki rann­sakað frekar nema undir blá­lokin.

Magda­lena Tworek stendur sig með prýði í hlut­verki nafn­lausu pólsku konunnar, sem á harm að bera, en þrammar á­fram veginn með bjart­sýnina að vopni. Hún heldur sýningunni uppi með fals­lausri fram­komu og húmor. Michael Richardt á einnig fína, kómíska spretti, þá sér­stak­lega sem ís­lenska konan sem talar alla í kaf um það hversu skilnings­rík hún er gagn­vart pólsku fólki. Pétur Óskar Sigurðs­son á erfiðara upp­dráttar í röð smærri hlut­verka, sem skilja fremur lítið eftir sig fyrir utan manninn frá Bíldu­dal sem kveinkar sér yfir for­dómum í garð lands­byggðar­fólks. Senurnar eru ör­sögur, svip­myndir inn í líf einnar konu, en stöðugt rof verður á milli inni­halds og úr­vinnslu.

Pá­lína leggur of mikla á­herslu á að skreyta textann með tákn­rænum hreyfingum, í staðinn fyrir að leyfa frá­sögninni að njóta sín. Til­raunirnar skila ekki list­rænni heild heldur röð at­riða sem stundum virðast koma úr annarri sýningu og þjóna þannig sjaldan textanum. Ekki veitir af meiri fjöl­breyti­leika í ís­lenskum sviðs­listum, og þó miklu fyrr hefði verið. Sam­kvæmt heima­síðu Tjarnar­bíós mun fleira lista­fólk af pólskum upp­runa stíga þar á svið á komandi mánuðum, sem er vel. Polis­hing Iceland er skref í rétta átt og verður for­vitni­legt að fylgjast með Reykja­vík Ensemble í fram­tíðinni því ferða­lagið er rétt að byrja.

Niður­staða: Ó­full­nægjandi list­ræn úr­vinnsla hamlar annars á­huga­verðri sögu.