Aðalheiður Héðinsdóttir, kaffimeistari Kaffitárs, er ein þeirra sem hefur flúið undan kórónaveirunni með vinnuna heim til sín. Þetta fól í sér aðeins meira en að loka bara fartölvunni og færa sig milli póstnúmera þar sem smökkunarherbergi Kaffitárs er í raun komið frá Keflavík heim í eldhúsið hennar í Garðabænum.

„Hingað til hefur þetta verið brennt suður í Keflavík í litlum prufubrennsluofni þar sem ég og brennslumeistarinn höfum svo verið að smakka,“ segir Aðalheiður sem fleiri þekkja ef til vill sem Addý í Kaffitári.

„Við fáum prufur til landsins af kaffi sem við erum að íhuga að kaupa. Bara 200 grömm eða eitthvað pínulítið,“ segir Addý um kaffið sem hún er að smakka og er hingað komið frá Gvatemala.

„Þegar við smökkum erum við með hvort með sína skeiðina ofan í sama bollanum og þótt maður skoli skeiðina á milli í vatni þá er auðvitað smithætta. Það er ekkert endilega gott að tveir séu að smakka úr sama bolla, þannig að það er nú búið að breyta því,“ segir kaffimeistari og stofnandi Kaffitárs sem blindsmakkar nú nýjar baunir frá Gvatemala heima hjá sér.

Sóttvarðir brennslustjórar

„Ragnheiður brennslumeistari gegnir svo mikilvægu hlutverki og til þess að hún yrði síður veik ákvað ég bara að ég myndi ekkert fara suður í Keflavík. Þannig að hún brennir prufurnar, sendir mér þær og ég smakka bara hérna heima.“

Mikilvægi brennslumeistaranna verður seint ofmetið þar sem óbrennt kaffi er, eins og allt kaffifólk veit, nánast pólitískur ómöguleiki. „Brennslumeistararnir okkar eru tveir og þau vinna hvort á sínum staðnum. Ef þau myndu bæði veikjast þá væri enginn til að brenna kaffið. Ég held að landinn væri nú ekki ánægður með það.“

Finnst þér kaffið gott?

„Við smökkum blindandi vegna þess að ef maður veit hvaðan kaffið kemur, til dæmis frá frægum bónda, þá hefur maður tilhneigingu til að finnast það betra,“ svarar Addý þegar hún er spurð um tilgang blindsmökkunar.

„Mannskepnan er bara þannig að ef hún heldur að eitthvað sé gott þá finnst henni það gott. Þess vegna smökkum við alltaf blindandi þannig að við vitum ekki hvað við erum að smakka,“ segir Addý og á flækjustiginu má ljóst vera að kaffismökkun lýtur sömu lögmálum og gilda um eðalvín og þrúgur. Hún segir fyrstu grundvallarspurninguna sem smakkarinn þurfi að svara einfaldlega vera hvort honum þyki kaffið gott? „Myndi maður vilja kaupa þetta?“

Kaffiborð fyrir báru

Kórónaveiran hefur sett öll samfélög úr lagi og taktur tilverunnar er hægur og drungalegur. Skortur er meðal þess sem fólk óttast mjög en Addý telur íslenska kaffifíkla enn sem komið er ekki hafa neitt að óttast í þeim efnum.

„Við höfum alltaf borð fyrir báru og ég er búin að flýta tveimur gámum bara af því að ég veit að þetta gæti dregist,“ segir hún um stöðuna hjá sér. „Við erum alltaf með góðar birgðir og svo erum við náttúrlega svo heppin að vera með tvær kaffibrennslur og hina fyrir norðan þannig að ég held að það komi nú ekki til að það verði kaffiskortur.“

Kaffiskortur

Þá telur Addý óhjákvæmilegt að einhver samdráttur verði í neyslunni þótt ekki væri nema aðeins fyrir samfélagslega þáttinn sem hefur í raun verið fjarlægður úr jöfnunni í bili.

„Ég hugsa að neyslan dragist aðeins saman vegna þess að við erum ekki að halda neinar veislur þar sem verið er að drekka kaffi,“ segir kaffimeistarinn, sem reiknar þó ekki með að hver og einn hægi á drykkjunni. Enda kaffi í eðli sínu drykkur sem virkar jafn vel í einsemd og fjölmenni.

„Ég er til dæmis búin að hella upp á þrisvar sinnum í dag heima hjá mér en helli bara þú veist alltaf upp á 300 grömm í einu og drekk það allt.“ Hún segist telja að um kaffi gildi sama lögmál og brauð. „Þetta er bara eitthvað svona sem maður þarf alveg á að halda og ég held að flestir kunni vel að meta þessi lífsgæði sem flestir geta veitt sér og eru fólgin í góðum kaffibolla.“