„Þegar ég hafði vit til reyndi ég að blanda mér inn í matargerð foreldra minna og fann fljótt að mér fannst gaman að elda helst mjög flókna rétti. Það var mín hugleiðsla. Þótt ég hefði nú ekki kallað það því nafni þá. Þegar ég svo flutti á stúdentagarðana byrjaði ég að safna að mér alls kyns kryddum og tók flugið í indverski matargerð, það er, um leið og ég lagði stund á stjórnmálafræði má segja að ég hafi tekið BA í indverskri matargerð. Þetta fór vel saman. Síðan hef ég ferðast um allan heim í matargerð og safnað gersemum; kryddum, bókum og upplýsingum. Það sem hafði ekki síður áhrif á mig er að Jóhanna systir fór ung að vinna í Heilsuhúsinu. Þá fékk ég einstakan aðgang að góðum heilsuupplýsingum og náttúrulega bestu kryddunum, sem eru í grunninn ekkert annað en góðar lækningajurtir.“

Hvað er það sem skiptir lykilmáli þegar við hugum að heilsunni okkar?

„Hafa jafnvægi milli anda og efnis. Það er lykilatriði. Það þýðir ekki eingöngu að einblína á mat og hreyfingu. Ég þarf í það minnsta að núllstilla mig reglulega. Ég tek góðar hugleiðslusyrpur og finn að ef ég fer í hugleiðslusturtu daglega þá haggar mér fátt. Sjósundið hefur einnig komið sterkt inn. Það þýðir lítið að hugsa of mikið í ísköldum sjónum, sem er sennilega ein tærasta núvitundaræfingin. Svo má alls ekki vanmeta lækningamátt líkamans sem við ættum öll að reyna að finna leið til að virkja. Það er kúnst en á alveg örugglega eftir að komast meira inn í umræðuna á næstu árum. Hluti af því er vissulega vandaður og góður svefn.“

Fyrsta boðorðið – góðri næring

Guðrún er á því að mataræði skipti miklu þegar kemur að heilsunni. „Ég held að flestir séu tilbúnir til að samþykkja í dag að 80% megi flokka sem lífsstílssjúkdóma og 20% það sem við ráðum ekki við. Það segir okkur að við getum haft ansi mikil áhrif á okkar heilsu sem því miður hefur að mestu tapast í streitu og lélegu mataræði. Upplýsingarnar hafa þó verið ansi misvísandi í gegnum tíðina. En við erum að læra og vísindin um mat, vítamín og bætiefni eru loks að vinna með okkur. Grænmeti og góðar jurtir skipta sköpum og svo auðvitað prótein og fita úr góðum uppsprettum. Streitan, aftenging við náttúruna og lélegt mataræði eru að mínu viti stóru vandamálin.“

Nú er alls konar mataræði sem fólk tileinkar sér, er eitthvert mataræði sem er betra fyrir líkama og sál en annað?

„Þetta er ansi einstaklingsbundið en fyrsta boðorðið er þó alltaf að huga að góðri grunnnæringu og velta fyrir sér hreinleika fæðunnar. Vera læs á mat og næringu. Eitt besta ráðið er alltaf að minnka kjötneyslu og borða meira grænmeti. Það er að auki umhverfisvænt. En um leið forðast unnar matvörur, sleppa hvítum sykri, hvítu hveiti og svo framvegis.“

Lífrænt hráefni í fyrsta sæti

Lífrænt hráefni ætti ávallt að vera fyrsta val að mati Guðrúnar. „Flest sem er lífrænt ræktað er talsvert næringarríkara og í raun svo miklu saðsamara og meira gefandi samanborið við margt sem eru bara innantómar kaloríur. Um leið er maður til dæmis að losna við eitraðan áburð sem getur safnast fyrir í líkamanum og valdið skaða. Það er svo miklu betra fyrir jörðina að rækta lífrænt. Það sem er gott fyrir okkur er líka gott fyrir jörðina.“

Þó að vitundarvakning hafi aukist um gott hráefni finnst Guðrúnu of mikið framboð af hinu gagnstæða. „Framboðið af skelfilega lélegum mat hefur aukist á sama tíma og vitundarvakning hefur orðið um góðan mat og gott hráefni. Það eru því góðir og slæmir hlutir að gerast á sama tíma.

Það er alltaf áhugavert að skoða stóru myndina. Á meðan við flest höfum vaxandi áhuga á vönduðu húsnæði, fallegum fatnaði og því að safna góðum græjum fyrir áhugamálin okkar hefur hráefnið og næringin í mat langt í frá fengið sama vægi. Það er alltof oft of léleg næring í fallegum eldhúsum, ef svo má að orði komast.

Mig langar að deila uppskrift að góðu kitsarí sem er sögð hin fullkomna næring. Í indversku lífsvísindunum, uppáhaldsheilsufræðunum mínum, er kitsarí í miklum metum og gjarnan borðað með fram andlegri iðkun eða þegar fólk vill draga sig í hlé um stund og hvíla meltinguna. Kitsarí hreinsun er iðkuð víða um heim þar sem jógafræðin hafa náð vinsældum. Fyrir marga er kitstarí hin sanna töfrafæða, ekki síst yfir vetrartímann enda bæði vermandi, þægilegt, bragðgott og auðmelt. Það frábæra við kitsarí er að það er einfaldur réttur en um leið grunnur sem hægt er að framreiða á fjölmarga vegu.“

Kitsar-rétturinn þykir vera hreinsun er iðkuð víða um heim þar sem jógafræðin hafa náð vinsældum.

Hið dásamlega kitsarí

1 bolli basmati hvít eða brún hrísgrjón

½ bolli mungbaunir

2 msk. ghee (smjörolía)

1 tsk. saxaður ferskur engifer 1 tsk. náttúrlegt salt

6 bollar vatn

1 msk. af kitsarí kryddblöndu

Kitsarí kryddblanda

¼ tsk. gul eða svört sinnepsfræ ½ tsk. kúmínfræ

½ tsk. túrmerikduft

1 og ½ tsk. kóríanderduft

½ tsk. fennelduft

Asafoetida á hnífsoddi (má sleppa, stundum erfitt að finna)

Hreinsið baunir og hrísgrjón vel með því að láta vatn renna yfir þau í gegnum sigti.

Notið meðalstóran pott og stillið á meðalháan hita. Bræðið um 1 msk. af ghee-i. Setjið út í sinnepsfræ og látið poppast. Bætið við kúmínfræjum, túrmerikdufti, kóríander- og fenneldufti og asafoetida (ef þið notið það). Síðan söxuðum ferskum engifer. Látið malla í sirka mínútu. Bætið nú hrísgrjónum og mungbaunum út í.

Hrærið aðeins í og þá er kominn tími til að setja út í 6 dl af vatni. Látið sjóða við vægan hita í 15 til 20 mínútur. Takið þá af hellunni, takið pottlokið af og setjið viskastykki yfir og látið pottlokið aftur á. Látið standa í 20 mínútur.

Nú er komið að því að borða en áður en þið gerið það skal setja restina af ghee-inu ofan á. Saltið eftir smekk og njótið.

Þessi uppskrift ætti að duga fyrir 2, eða 1 í hádegis- og kvöldmat. Ef þið viljið bæta við grænmeti hafið það auðmeltanlegt. Það eru gulrætur, aspas, grænar baunir, grasker, kúrbítur eða sæt kartafla.

Kóríandersósa

ofan á, fyrir meira bragð

1 búnt kóríander

¼ bolli sítrónusafi

¼ bolli vatn

¼ bolli kókosþykkni eða kókosmjöl

2 msk. engifer

1 tsk. hunang eða önnur lífræn sæta

1 tsk. salt

Pipar

Maukið allt saman í matvinnsluvél og munið að hafa allt það hráefni sem þið getið lífrænt ræktað. Það er mátulegt að setja 1 til 2 msk. ofan á hverja skál.