Ástin mun svífa yfir vötnum og mikið verður um dýrðir þegar knattspyrnumaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson gengur að eiga lögfræðinginn Hólmfríði Björnsdóttur suður á Spáni í næstu viku.

„Ástin getur auðvitað birst í óteljandi myndum, eins og Björgvin Halldórsson syngur svo fallega í laginu sínu, en í okkar huga koma þó upp tiltekin atriði sem ást okkar verðandi hjóna byggir á. Við erum, og höfum alltaf verið, mjög skotin í hvort öðru. Því kemur hrifning og ástríða fyrst upp í hugann. Gagnkvæm virðing, tillitssemi, traust og náin vinátta einkenna fyrst og fremst samband okkar, sem og stuðningur og frelsi til að þroskast sem einstaklingar og sem eining. Svo má alls ekki gleyma húmornum. Hann er lífsnauðsynlegur og hefur komið okkur í gegnum alls kyns verkefni síðastliðin ár.“

Þetta segir lögfræðingurinn Hólmfríður Björnsdóttir sem gengur að eiga sinn heittelskaða, Jóhann Berg Guðmundsson, knattspyrnumann hjá enska knattspyrnufélaginu Burnley, þann 16. júní.

Hófý og Jóhann hnutu um hvort annað á veitingastað í Reykjavík.

„Ég var þar að borða með vinkonu minni og Jóhann var með æskuvinum sínum. Þegar vinkona mín skaust á snyrtinguna var Jóhann fljótur að stökkva í sætið hennar og hóf við mig kurteislegt spjall. Að lokum bað hann mig um símanúmerið en ég svaraði því til að ég gæfi ekki ókunnugum mönnum símanúmerið mitt. Jóhann Berg hefur hins vegar alltaf litið á hindranir sem tækifæri og þannig varð það sannarlega í þetta sinn. Hann bað systur sína að hafa samband við systur mína í þeim tilgangi að nálgast símanúmerið mitt og viti menn, nokkrum dögum síðar fékk ég skilaboð send frá þessum bláókunnuga manni,“ segir Hófý og skellir upp úr.

Koss í Kópavogskirkju. Það er séra Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju, sem gefur þau Hófý og Jóhann saman í heilagt hjónaband á Spáni. M

Ástin talar sínu máli

Þau eru sannarlega ástfangin upp fyrir haus og Jóhann Berg veit upp á hár hvers vegna Hófý er sú eina rétta fyrir hann.

„Þegar við áttum okkar fyrsta spjall sá ég strax að þarna var alvöru kona á ferð og að ég yrði að redda símanúmerinu hennar til að kynnast henni betur. Það er erfitt að koma þessari tilfinningu í orð en þegar við fórum að spjalla meira, kynnast betur og vera meira saman, þá fann ég að hún væri sú rétta fyrir mig,“ segir Jóhann og heldur áfram:

„Hófý er duglegasta og metnaðarfyllsta kona sem ég þekki. Ekki nóg með að hún haldi heilu heimili gangandi með lítilli hjálp fjarri fjölskyldu og vinum; þá er hún einnig í fullu starfi sem lögfræðingur. Dugnaður hennar er, og hefur alltaf verið, einstaklega hvetjandi fyrir mig. Hófý er alltaf reiðubúin að hjálpa öllum í kringum sig og er alltaf til staðar fyrir alla sína fjölskyldu og vini. Það skemmir svo ekki fyrir hvað hún er ótrúlega skemmtileg og falleg.“

Hófý er heldur ekki í vafa um hvers vegna hún vill verða eiginkona Jóhanns um aldur og ævi.

„Jóhann býr yfir öllum helstu kostum sem fólk myndi kjósa að geta státað sig af. Hið augljósa er hvað mér finnst hann sætur og skemmtilegur. Hann er jafnframt mjög yfirvegaður, duglegur og viljasterkur, einnig klár og mjög jákvæður. Frá fyrstu kynnum hefur hann borið með sér mikla einlægni og það finnst mér vera afar fallegur eiginleiki. Jóhann hefur líka alltaf komið til dyranna eins og hann er klæddur, og honum líður afar vel í eigin skinni. Það er eitt af því sem heillaði mig hvað mest þegar við kynntumst fyrst og sem ég hef kunnað að meta við hann hvern einasta dag síðan. Föðurhlutverkið fer Jóhanni einnig einstaklega vel og er hann besti pabbi sem hugsast getur. Hann lifir fyrir hvern dag og kann að njóta lífsins til fulls og það er eitt af mörgu sem ég hef lært af honum og reynt að tileinka mér,“ segir Hófý.

Hófý segir föðurhlutverkið fara Jóhanni einstaklega vel.

Látlaust og fallegt bónorð

Bónorðið bar Jóhann upp í Bodrum í Tyrklandi.

„Við fjölskyldan höfðum þá borðað kvöldverð á ströndinni og eftir að ég svæfði dóttur okkar sagðist Jóhann ætla að sýna mér eitthvað úti á veröndinni. Þegar ég kom út skellti hann sér á skeljarnar og sagði við mig nokkur falleg orð. Þetta var afar látlaus, náin og falleg stund, alveg í okkar anda,“ upplýsir Hófý.

Brúðkaupið fer fram á hótelinu La Finca Resort á Spáni.

„Við höfðum áður rætt um að halda brúðkaupið erlendis en vorum lengi vel ekki með ákveðna dagsetningu í huga. Á endanum má segja að örlögin hafi ráðið för við val á staðsetningu brúðkaupsins. Það er nefnilega þannig að sumarhúsið okkar er ekki langt frá hótelinu þar sem við verðum gefin saman. Í fyrrasumar vorum við í sumarfríi í sumarhúsinu og foreldrar Jóhanns með okkur. Sonur okkar, Björn Berg, var aðeins tæplega 5 mánaða, svo brúðkaupshugleiðingar voru á þeim tímapunkti litlar sem engar. Dag einn fór að rigna og stakk þá Íris, móðir Jóhanns, upp á að við færum í bíltúr. Guðmundur, faðir Jóhanns, og Jóhann höfðu fyrr í ferðinni átt erindi á hótelið La Finca Resort og voru afar hrifnir af klúbbhúsinu við golfvöllinn. Við ákváðum því að enda bíltúrinn á hádegisverði þar. Þegar þangað var komið tók á móti okkur yndislegt fólk sem labbaði með okkur um svæðið, en á þeim tíma var hótelið lokað vegna heimsfaraldursins. Í miðri kynningu staldra ég við, hnippi í Jóhann og spyr hann í gríni hvort þetta sé ekki bara fullkominn staður fyrir brúðkaupið. Þá sagðist Jóhann hafa hugsað nákvæmlega það sama þegar hann hafði verið þarna nokkrum dögum áður,“ greinir Hófý frá.

Eftir heimsóknina á hótelið ákváðu Hófý og Jóhann að kanna þennan möguleika nánar en komust þá fljótt að því að allar helgar sumarsins 2022 væru uppbókaðar, enda hafði þurft að fresta fjöldanum öllum af brúðkaupum um ár vegna Covid-19.

„Eftir nokkra umhugsun fannst okkur svo tilvalið að halda veisluna 16. júní, enda lögboðinn frídagur næsta dag og svo tekur helgin við. Við höfðum aftur samband við hótelstýruna sem tilkynnti okkur að dagsetningarnar sem við vildum væru lausar. Í framhaldinu ákváðum við að kýla á þetta, enda höfum við mikla tengingu við staðinn þar sem sumarhúsið okkar er í stuttri fjarlægð frá hótelinu. Sú tilhugsun að geta síðar meir heimsótt hótelið og sýnt börnum okkar og barnabörnum hvar við giftum okkur, finnst okkur líka dásamleg,“ segir Jóhann.

Jóhann Berg er ekki þekktur fyrir uppgjöf og sýndi útsjónarsemi til að komast yfir símanúmer Hófýjar. Myndin er tekin þegar þau trúlofuðust.

Við ákváðum að afþakka allar persónulegar brúðargjafir en óska þess í stað að veislugestir okkar sameinist í því að styrkja Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna með frjálsu framlagi.

Eiga von á 170 gestum til Spánar

Athöfnin fer fram undir berum himni og verða brúðhjónin gefin saman af séra Sigurði Arnarsyni, sóknarpresti í Kópavogskirkju.

„Siggi er náinn fjölskylduvinur og erum við honum afar þakklát fyrir að gefa sér tíma til að ferðast alla þessa leið fyrir okkur,“ segja brúðhjónin tilvonandi. Í athöfninni munu þau draga hringa á fingur hvors annars, sem voru hannaðir og sérsmíðaðir eftir þeirra óskum af kunningja þeirra í Manchester.

Í fyrstu höfðu þau litla sem enga hugmynd eða skoðun á því hvernig þau vildu hafa brúðkaupið.

„Við tókum þetta bara sem hvert annað verkefni og fundum út hvernig við vildum hafa þetta. Tengiliður okkar á hótelinu var ofboðslega hjálplegur og setti okkur í samband við konu sem starfar sem svokallaður „wedding planner“. Við hefðum varla getað undirbúið þetta nema með þeirra hjálp þar sem við búum hvorki á staðnum né tölum spænsku. Síðastliðna mánuði höfum við svo farið nokkrum sinnum til Spánar til að velja og hitta aðilana sem útbúa blómaskreytingar og önnur smærri atriði, smakka og ákveða veitingarnar, og ýmislegt fleira sem viðkemur þessum viðburði. Við erum afar þakklát öllu því góða fólki sem hjálpar okkur við að láta þetta allt verða að veruleika,“ segir þau Hófý og Jóhann.

Veisluhöldin hefjast með pompi og prakt miðvikudaginn 15. júní með fyrir-partíi á veitingastað í nágrenni hótelsins þar sem þau verða gefin saman.

„Þar munu allir hittast og gleðjast saman fyrir stóra daginn. Við eigum von á 170 dásamlegum gestum sem samanstanda af góðu vinafólki okkar og nánustu fjölskyldu. Daginn eftir verður svo athöfnin haldin um miðjan dag og eftir hana tekur við kokteilboð sem síðan leiðir til borðhalds innanhúss. Veislumaturinn endurspeglar svo sannarlega dálæti okkar í matargerð en kokteilboðið fyrir borðhaldið verður með spænsku ívafi.“

Jóhann er mikill golfari og hefur Hófý reynt að fara með honum í golf á milli barneigna. Hér eru þau í golfi á Spáni.
Fjölskyldan við sundlaugarbakkann í sumarhúsinu sínu á Spáni.

Fann brúðarkjólinn í London

Jóhanni og Hófý þykir mikill kostur að gifta sig á hóteli þar sem þau eru viss um að skemmtileg stemning myndist á meðal brúðkaupsgesta sem kjósa að gista með þeim á hótelinu.

„Þegar við ákváðum að halda brúðkaupið um hásumar á Spáni gerðum við okkur fulla grein fyrir því að sumir myndu trúlega ekki komast og höfðum auðvitað fullan skilning á því. Það kom okkur því skemmtilega á óvart þegar ljóst var að mætingin færi fram úr okkar björtustu vonum og það er einstaklega skemmtilegur partur af ferlinu að verða þess áskynja hvað allir eru spenntir og jákvæðir fyrir þessu,“ segir Jóhann.

Brúðarkjóllinn verður vitaskuld leyndarmál þangað til brúðurin verður leidd upp að altarinu.

„Ég er ekki ein af þeim sem hafði myndað mér ákveðnar skoðanir um það hvernig draumakjóllinn ætti að líta út. Ég var í samkvæmis-dansi í um fimmtán ár og hef því líklegast prófað allar útgáfur af prinsessukjólum sem til eru á markaðnum. Þó var það þannig að fyrir þó nokkru sá ég mynd af ákveðnum kjól sem mér fannst afar fallegur og höfðaði til mín. Þegar ég hófst handa í brúðarkjólaleitinni mundi ég eftir þessum fallega kjól og ákvað að athuga hvort einhver búð í nágrenninu væri með kjóla frá þessum tiltekna hönnuði eða merki. Ég fann slíka búð í London og ákvað að gera mér ferð þangað. Ég var svo varla búin að máta kjólinn þegar ég hringdi í mömmu á Facetime og sagði svo í framhaldi við afgreiðslustúlkuna: „Þetta er hann! Ég ætla að kaupa þennan!“ segir Hófý og hlær að minningunni.

Brúðkaupsferðin bíður betri tíma.

„Þar sem Jóhann þarf að mæta fyrr en ella til vinnu þetta sumarið ákváðum við að fresta brúðkaupsferðinni þar til síðar á árinu. Við höfum ekki enn tekið ákvörðun um áfangastað en höfum nokkra staði í huga sem gaman væri að heimsækja.“

EInn skemmtilegasti dagur lífsins segir Hófý hafa verið þegar vinkonur hennar héldu henni gæsapartí með pompi og prakt heima á Íslandi. Þemað var hvítir kjólar og lifandi blómakransar.

Veigamesta veganestið

Hófý og Jóhann Berg eiga saman tvö börn. Spurð hvers vegna þau hafi ákveðið að ganga í hjónaband nú, svara þau:

„Megin ástæða þess að við ákváðum að gifta okkur var og er sú að við elskum hvort annað og langar að njóta hvers dags saman það sem eftir er ævinnar. Eftir að við eignuðumst börnin okkar fannst okkur svo bara enn ríkari ástæða til að láta af þessu verða.“

Innt eftir því hvaða gildi hjúskaparsáttmálinn hafi í huga brúðhjónanna tilvonandi, stendur ekki á svari.

„Síðastliðinn áratug höfum við reynt að læra af hvort öðru og tileinka okkur kosti hvors annars, til að verða besta útgáfan af sjálfum okkur. Við teljum að með því að gera það verði maður jafnframt besta útgáfan af maka og besta útgáfan af foreldri fyrir börnin okkar. Það má því kannski segja að hjónavígslan sé aðeins opinberun á því sem við höfum gert í þegjandi hljóði síðastliðin ár og loforð um að þetta sé það sem okkur langar að gera í sameiningu það sem eftir er ævi okkar. Það verður því afar dýrmætt að deila þessari stund með okkar nánustu á Spáni.“

Þau Hófý og Jóhann eru sannfærð um hvert sé veigamesta veganestið í góðu hjónabandi.

„Við teljum gagnkvæma virðingu, traust, trúnað, vináttu og húmor vera grundvallaratriði í öllum góðum samböndum, þar með talið í hjónabandi. Við vitum að án ástar er ekkert líf og án átaka er enginn þroski. Þess vegna er okkur afar mikilvægt að geta talað saman í einlægni og hreinskilni og þannig tekist á við skin og skúrir lífsins.“

Þau líta björtum augum fram á veginn, brátt orðin eitt sem hjón.

„Við höfum tileinkað okkur það heilbrigða viðhorf til lífsins að hver dagur sé gjöf og að mikilvægt sé að lifa því lifandi. Framtíðarsýn okkar byggist því fyrst og fremst á því að njóta lífsins saman og að njóta þess að sjá börnin okkar vaxa og dafna.“

En hvað myndi fullkomna brúðkaupsdaginn?

„Við erum alveg viss um að gestirnir okkar, fjölskylda og vinir, verði það sem fullkomni daginn. Gott veður og góður félagsskapur svíkur engan! Við ákváðum einnig að afþakka allar persónulegar brúðargjafir en óska þess í stað eftir að veislugestir okkar sameinist í því að styrkja Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna með frjálsu fjárframlagi. Við eigum okkur þá einu ósk að láta gott af okkur leiða og því myndi það gera gott enn betra ef sem flestir tækju þátt í því að láta þessa ósk okkar verða að veruleika.“