Sólin er okkur og öllu öðru lífi á jörðinni nauðsynleg og það er hollt fyrir húðina og sálina að fá sólarljós. En allt er gott í hófi og geislar sólarinnar geta flýtt fyrir hrörnun húðarinnar og valdið bruna og jafnvel húðkrabbameini. Í dag mæla því margir húðlæknar með því að vera alltaf með sólarvörn, allan ársins hring, óháð veðri, vegna þess að útfjólublá geislun frá sólinni nær alltaf að brjótast gegnum skýin.

Landlæknisembættið bendir á að við sem búum þar sem sólin skín sjaldan erum yfirleitt með húð sem þolir geislun sólarinnar illa og að þó að sólin sé yfirleitt ekki oft mjög hátt á lofti geti útfjólublá geislun sólarinnar samt sem áður valdið bruna á skömmum tíma, vegna þess að andrúmsloftið á Íslandi er svo tært.

Mikilvægt að vernda börn

Landlæknisembættið bendir enn fremur á að það sé sterkt samband milli þess að brenna í sólinni og að fá húðkrabbamein síðar á ævinni, en það er algengasta krabbameinið á Íslandi og hefur aukist mikið á undanförnum áratugum, líklega vegna aukningar á sólarlandaferðum Íslendinga.

Húð barna er mikið viðkvæmari en fullorðinna og því þarf að gæta sérstaklega að því að þau brenni ekki í sólinni. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Húð barna er mikið viðkvæmari en fullorðinna og því þarf að gæta sérstaklega að því að þau brenni ekki í sólinni. Sólargeislar ættu aldrei að skína beint á ungbörn. Sólhattur og þunn sumarföt henta ungbörnum vel og barnavagnar ættu að vera staðsettir í skugga.

Skemmdir safnast upp

Bandaríski miðillinn Chicago Tribune leitaði ráða hjá húðlækninum Katie Manno, sem starfar í eyðimörk Nevada-fylkis, þar sem aldrei er neinn skortur á sólskini. Hún segir að fólk eigi að vera með sólarvörn á hverjum degi því að fólk sé alltaf að fá á sig útfjólubláa geislun þegar það er úti, óháð veðri og árstíð.

Manno segir að þegar það sé skýjað nái samt 80% af geislun sólarinnar að komast gegnum skýin og að þegar það er snjór geti útfjólublá geislun næstum tvöfaldast. Þess vegna eigi fólk einfaldlega alltaf að vera með sólarvörn, jafnvel þó að það fari bara út í örfáar mínútur á dag. Hún segir að ef fólk geri það ekki safni það upp skemmdum í húðinni, sem geti leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni.

Að minnsta kosti 30 SPF alla daga

Á heimasíðu hins virta Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum, þar sem stundaðar eru miklar rannsóknir, segir húðlæknirinn Anna Chien að sólarvörn sé ein besta leiðin til að vernda heilsu og útlit húðarinnar, óháð aldri, og að hana eigi að nota daglega. Hún segir að hversdagslega ætti fólk að nota sólarvörn sem er að minnsta kosti 30 SPF, en ef fólk verji tíma utandyra ætti það að nota vörn með 60 SPF eða meira.

Mælt er með því að nota sólarvörn sem er að minnsta kosti 30 SPF en ef fólk er mikið úti í sólinni þarf að nota sterkari vörn. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hún bætir við að flestir noti ekki nægilega mikla sólarvörn og þetta aukna SPF-gildi hjálpi við að bæta upp fyrir það. Hún segir að til að vernda andlitið, hálsinn, handleggina og fótleggina þurfi um 30 ml af sólarvörn, sem sé nóg til að þekja lófann alveg.

Farði með sólarvörn ekki nóg

Chien segir að ef sólarvörnin er að minnsta kosti 30 SPF, breiðvirk og sett á húðina um 15 mínútum áður en farið er út, þá skipti ekki máli í hvaða röð aðrar húðvörur eru settar á húðina. Hún mælir með því að fólk finni bara hvað hentar því best og að ef fólk hafi áhyggjur af því að blanda saman einhverjum vörum ætti það að ræða við húðlækni.

Chien segir að farði sé ekki nóg til að vernda húðina, jafnvel þó að hann hafi hátt SPF-gildi, vegna þess að fólk noti aldrei nógu mikið af honum til að vernda húðina almennilega fyrir geislum sólarinnar.

Bæði Chien og embætti landlæknis mæla með því að bera sólarvörn aftur á húðina á tveggja tíma fresti ef það er úti í sólinni, sérstaklega ef fólk er að synda eða svitna. Ef fólk er hins vegar innandyra allan daginn og situr ekki við glugga segir Chien að það sé ekki víst að það sé þörf á að bera hana á sig aftur, en það fer eftir því hvort fólk er að skreppa eitthvað út. Þá getur verið gott að vera með auka sólarvörn á skrifborðinu til öryggis. ■