Ég ákvað í sumar að semja jólalag fyrir þessi jól og settist niður við píanóið í lok október. Lagið kom nokkuð fljótt til mín og tók litlum breytingum frá fyrstu hugmynd,“ upplýsir Grétar um allra fyrsta jólalag Stjórnarinnar sem nú heyrist oft í útvarpinu á indælli aðventunni.

Jólalagið, Enn ein jól, slær heillandi klukknahljómi við endalok þrítugasta afmælisárs hljómsveitarinnar.

„Mér fannst tilvalið að koma með jólalag í tilefni 30 ára afmælis Stjórnarinnar og svo er Sigga alltaf með sína árlegu jólatónleika,“ segir Grétar en Sigga er einmitt með sína árlegu og vinsælu jólatónleika í Hörpu í kvöld og á morgun.

„Grétar kom til mín með hugmynd að laginu, mjög hrátt að vísu, en ég heyrði samt að það var eitthvað þarna sem heillaði. Áður en ég vissi af var hann búinn að útsetja lagið ásamt Mána Svavars og Þóri Úlfars og svo spiluðu strákarnir lagið inn og ég söng það fyrir sirka tíu dögum. Útkoman er bara fínasta jólalag; það fyrsta sem Stjórnin sendir frá sér og líka fyrsta jólalagið sem við Grétar syngjum saman,“ segir Sigga sæl og í kátu jólaskapi.

„Textinn er eftir Braga Valdimar og er aðfangadagshugleiðing með draumkenndu ívafi og ósk um að vera í faðmi ástvina yfir jólin,“ útskýrir Grétar um grípandi jólalag Stjórnarinnar sem er að slá í gegn.

En hversu vel þekkja þau Sigga og Grétar hvort annað eftir 30 ára vináttu og farsælt Stjórnarsamstarf? Hér svara þau fáeinum jólaspurningum sem leiða það í ljós.

Sigga, hvað gæfir þú Grétari í jólagjöf?

Tja, þegar stórt er spurt! Ég mundi gefa honum náttföt. Ég held að hann eigi engin.

Hvað byðir þú honum upp á í jólamat á aðfangadagskvöld?

Ég gæfi honum möndlugraut með veglegum verðlaunum sem ég mundi að sjálfsögðu vinna. 

Í aðalrétt yrði lambahryggur því ég veit að hann elskar svo hrygg í matinn, og í eftirrétt hefði ég ísinn góða sem ég bý alltaf til fyrir jólin og er eftir uppskrift ömmu minnar og nöfnu.

Hvaða jólalag syngdirðu fyrir hann?

Ég mundi sleppa honum við Eitt lag enn og syngja í staðinn Enn ein jól, sem er nýjasta lag Grétars. Hann yrði glaður með það.

Hvaða jólasið kæmirðu Grétari upp á?

Að muna að baða sig alltaf á aðfangadag.

Hvaða jólamynd sæuð þið saman?

Það yrði „National Lampoon‘s Christmas Vacation“; engin spurning.

Hvað mundir þú skrifa í jólakort til Grétars?

Elsku Grétar. Gleðileg jól til þín og þinna. Takk fyrir samvinnuna og vinskapinn á árinu sem er að líða. Ég hlakka til að hitta þig á nýju ári. Kær kveðja, þín Sigga.

Hvaða nýársósk áttu honum til handa?

Að hann megi eiga gæfuríkt, hamingjusamt og yndislegt ár.

------

En Grétar; hvað gæfir þú Siggu í jólagjöf?

Nýtt jólalag.

Hvað byðir þú henni upp á í jólamat á aðfangadagskvöld?

Í forrétt kæmi ekkert annað til greina en humar frá Hornafirði. 

Aðlrétturinn yrði að sjálfsögðu rjúpur með hinni margrómuðu rjúpusósu undiritaðs, ásamt brúnuðum kartöflum og öðru tilheyrandi meðlæti.

Í eftirrétt myndi ég bjóða henni upp ljúffengan heimagerðan ís með heimagerðri súkkulaðisósu. Það stenst ekki nokkur maður!

Ekki má svo gleyma kaffinu og íslensku konfekti. Þar sem Sigga drekkur ekki kaffi fengi hún Egils malt og appelsín.

Hvaða jólalag myndir þú syngja fyrir hana?

Enn ein jól.

Hvaða jólasið kæmirðu Siggu upp á?

Að hamfletta rjúpur á Þorláksmessu.

Hvaða jólamynd sæuð þið saman?

Die Hard og ekkert væl! Eða kannski Schwarzenegger í örvæntingafullri leit að jólagjöf í myndinni Jingle all the way.

Hvað mundir þú skrifa í jólakort til Siggu?

Elsku Sigga mín. Óska þér og þinni fjölskyldu gleðilegrar og hamingjuríkrar jólahátíðar. Takk fyrir skemmtilega samvinnu á árinu sem er að líða. Bið fyrir sérstaka jólakveðju til pabba þíns og segðu honum að láta sér líða vel.   

Hvaða nýársósk áttu henni til handa?

Að komandi ár megi verða henni gæfuríkt og að samvinna okkar haldi áfram að vera jafn góð og á árinu sem er að líða.