Nú á laugardaginn opnar myndlistarmaðurinn og borgarfulltrúinn Aron Leví Beck, sem gengur einnig undir listamannsnafninu Albeck, sýninguna Á milli húsa í Hannesarholti. Aron var um tíma borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hann snýr nú aftur í borgarstjórn eftir að hafa verið varaborgarfulltrúi um skeið.

„Ég er vanalega að vinna í tveimur mismunandi stílum af myndlist. Ég hef verið að gera þessar borgarmyndir í svolítinn tíma og svo hef ég líka verið að gera abstraktverk. Það er bara eitthvað sem þarf að gerast. Að sama skapi verða borgarmyndirnar líka að fá sitt pláss, þær eru rólegri yfirlitum og formfastari,“ segir Aron.

Engar fyrirmyndir eru að borgarmyndunum heldur málar Aron þær út frá eigin hugmyndum.

„Þær eru unnar út frá minningum og tilfinningum. Þær fara hvernig sem er. Með minn bakgrunn sem byggingafræðingur þá hef ég þekkingu og getu til að teikna þessa hluti nákvæmlega upp og sem málarameistari þá hef ég hæfnina til að fylla inn í eyður. Þetta kemur frekar náttúrulega til mín. Þar hefur klárlega áhrif að ég fer í málarameistarann og byrja að mála húsin í borginni. Svo einhvern veginn líður mér eins og það sé ekki nóg, þá fer maður og vill læra að hanna húsin. Þá fer ég í byggingafræði, sem ég útskrifast úr. Það virðist svo heldur ekki vera málið því þá byrjaði mig að langa að hanna borgir og fer því í meistaranám í borgarskipulagi,“ segir hann og bætir við að þar hafi hann áttað sig á að það sem honum þyki langskemmtilegast sé að hafa áhrif á sjálft borgarskipulagið.

Mikill fuglaáhugamaður

Í kjölfarið gefur Aron kost á sér fyrir hönd Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum.

„Þar er ég fenginn í skipulagsráð. Með fram því var ég að mála og var byrjaður að gera þessar borgarmyndir. Frá því að ég málaði húsin yfir í að festa þau á striga, þá líður mér eins og ég sé kominn einhvern súrrealískan hring í þessum málum,“ segir hann og hlær.

Aron segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á nærumhverfi sínu.

„Ekki með þessa miklu útlandaþrá sem margir virðast vera með. En ég gef nærumhverfinu alltaf mikinn gaum, ef það má orða það þannig. Það er eitthvað við húsin, byggingarnar og borgarmyndina, þessa hreinu fleti, sem æra mig en sefa á sama tíma. Það tekur langan tíma að vinna myndirnar, ég mála oft í sömu fletina. Þá bæði til að ná fram ákveðinni áferð og til þess fá litasamsetningu í myndina sem ég er ánægður með,“ segir hann.

Hann hefur líka lengi haft áhuga á fuglum og var stjórnarmeðlimur Fuglaverndar um tíma.

„Ég hef unnið við fuglarannsóknir hjá Náttúrufræðistofnun og verið að merkja fugla,“ segir Aron, en telur þó ólíklegt að það áhugamál færist yfir á strigann. ,,En aldrei að segja aldrei,“ bætir hann við.

Aftur í borgarstjórn

Aron tekur á ný sæti í borgarstjórn en hann hefur skipst á að vera varaborgarfulltrúi og borgarfulltrúi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík.

„Ég var fyrst varaborgarfulltrúi, síðan dett ég inn í eitt og hálft ár, varð svo aftur varaborgarfulltrúi og er núna að detta aftur inn,“ útskýrir Aron.

Hann segir það einstaklega gaman að koma aftur inn, þá reynslumeiri en í fyrra skiptið.

„Það er gaman að koma með þá reynslu sem ég öðlaðist frá því að ég var borgarfulltrúi og í skipulagsráði. Maður þarf ekki þennan tíma til að átta sig á því hvernig hlutirnir virka heldur getur gengið beint til verka.“

Á dögunum eignaðist Aron dóttur með söng- og útvarpskonunni Karitas Hörpu Davíðsdóttur

„Hún heitir Bogey Lóa Beck. Nafnið Bogey er mikið í fjölskyldunni minni, allar þær Bogeyjar sem eru á landinu er náskyldar mér. Amma mín sem ég var mikið hjá heitir líka Bogey, mér þykir mjög vænt um þetta nafn. Svo er Lóa auðvitað bein vísun í fuglaáhugann. Sonur okkar heitir einmitt Hrafn Leví Beck.“

Aron er með vinnustofuna heima fyrir. Hann segist reyna að halda börnunum að mestu frá vinnustofunni, þar sem hann vinnur helst með olíumálningu.

„En strákurinn minn sér hurðina á stúdíóinu í hillingum, hann langar svo inn og hefur aldrei fengið að fara inn nema ég haldi á honum,“ segir hann og hlær.

Formleg opnun sýningarinnar Á milli húsa stendur frá kl. 15.00 til 17.00 í Hannesarholti. Sýningin stendur yfir til 11. mars.