Þórunn segir að hún væri búin að lesa meira á árinu ef það hefði ekki verið svona mikið að gera í vinnunni og skólanum, en þess vegna hefur hún ekki komist yfir meira. Hún er yfirleitt að lesa nokkrar bækur í einu og stefnir á að lesa alla Hringadróttinssögu fyrir áramót. Þórunn er úr Hafnarfirði og er að klára stúdentinn, en hún vinnur líka á íbúðakjarna á vegum Reykjavíkurborgar og í bókabúðinni Eymundsson.

„Ég held að þetta hafi byrjað þegar ég var bara lítil. Mamma las mikið fyrir mig og afi og amma gefa mér alltaf bók við hvert einasta tækifæri, hvort sem það er afmælis-, jóla- eða sumargjöf,“ segir Þórunn. „Þegar ég var tveggja ára og vaknaði og mamma nennti ekki að sinna mér gat hún líka alltaf fengið svefnfrið með því að láta mig hafa bók og þá sat ég róleg og skoðaði myndirnar.

Þegar ég tala um hvaða bækur mér finnst skemmtilegar snýst það um tilfinninguna sem ég fæ frá sögunni, hún höfðar þá til manns á einhvern ákveðinn hátt sem er ekki hægt að útskýra, en stundum bara nær höfundur manni alveg,“ segir Þórunn, sem les aðallega erlendar skáldsögur sem gerast í samtímanum.

„Að mínu mati er bókamenning dvínandi hér á Íslandi, en ég vona að það sé bara tímabundin lægð. Það er til dæmis frekar sorglegt hvernig fór fyrir Máli og menningu og það er hægt að telja fyrirtækin sem reka bókabúðir á Íslandi á annarri hendi,“ segir Þórunn.

Nóg af góðum bókum á árinu

„Ég er alltaf með átta bækur í gangi í einu. Af einhverri tilviljun eru þær einhvern veginn alltaf átta. Ég á erfitt með að hemja mig að byrja á nýjum bókum, en ég klára bækur samt alltaf á góðum tíma,“ segir Þórunn. „Ég er komin yfir 90 bækur á árinu, en ég er búin að vera að vinna mjög mikið, annars hefði ég lesið meira. Ég er líka í skóla og þurfti að lesa mikið fyrir hann og það hægði líka á mér.

Núna er ég að lesa Hilduleik eftir Hlín Agnarsdóttur, sem er nýkomin út og lofar mjög góðu. Ég var líka að enda við að lesa Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur, sem er mjög góð smásögubók. Það er sjaldgæft að allar smásögurnar í bók höfði til manns og séu góðar,“ segir Þórunn. „Ég er líka byrjuð á Gata mæðranna eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur og hún er mjög góð. Mig langar líka að lesa nýju bókina eftir Jón Kalman Stefánsson, Fjarvera þín er myrkur.“

Þórunn sér ekki fram á mikið jólafrí, en ætlar samt að reyna að klára eins margar bækur og hún getur fyrir áramót.

„Ég er með bunka á náttborðinu mínu af 17 bókum sem mig langar að byrja á og ætla meðal annars að lesa Hringadróttinssögu fyrir áramót,“ segir hún. „Þá gæti verið að ég setji aðrar bækur í bið á meðan, sem gerist stundum. En það er líka gaman að flakka á milli bóka eftir því hvernig stuði ég er í.“