„Það er talað um að um það bil tveir af hverjum tíu halda fram hjá maka sínum,“ segir Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefið, í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að karlar séu líklegri til að fara í líkamlegt framhjáhald en konur tilfinningalegt, sem felst til dæmis í daðri á kynferðislegum nótum.

Leggið öll spilin á borðið

„Forsenda þess að það sé hægt að laga samband eftir framhjáhald er að báðir aðilar séu skuldbundnir því verkefni að ákveða að leggja sig fram. Gerandinn þarf að axla ábyrgð og slíta öll tengsl við hina manneskjuna og vera til dæmis ekki vinur hennar á Facebook eða í einhverju spjalli þegar þú ert að laga sambandið með núverandi maka,“ upplýsir Valdimar.

Valdimar segir að gerandi þurfi einnig að vera meðvitaður um að leggja öll spilin á borðin og láta ekkert ósagt.

„Það getur verið mjög vont fyrir þann sem verður fyrir framhjáhaldinu að það komi einhverjar upplýsingar eftir ár,“ segir Valdimar og bætir við:

„Það er mikilvægt fyrir þolandann að ná utan um hvað hafi verið að gerast, því annars fer hann jafnvel að vera með þráhyggjukenndar hugsanir og geta í eyðurnar um það versta, sem er mögulega verra en raunveruleikinn,“ segir Valdimar og bendir á að þolandi þurfi einnig að ákveða hvort hann ætli að fyrirgefa, en ekki að fara að hefna sín og taka út reiðina á geranda sínum út í hið óendanlega.

Þá sé einnig mikilvægt að hafa í huga að hvort gerandi né þolandi kasti ábyrgðinni á viðhaldið, sem geti verið ákveðin flóttaleið.

Þrjú lykilatriði í uppbyggingu sambanda

„John Gottman er sá sem hefur rannsakað sambönd hvað mest og hann talar um fjögur lykilatriði til þess að samband sé líklegt til þess að vera gott,“ upplýsir Valdimar, en segir að fjórða atriði eigi þó eingöngu við þegar sambandið er orðið sterkara.

„Númer eitt er að samband byggist á vináttu með því að verja tíma saman, sem dæmi á kaffihúsi og spjalla saman.“

Næst er það traust, líkt og fjallað hefur verið um hér að ofan.

Síðan er það skuldbinding.

„Þú ert í rauninni búinn að ákveða að vera í sambandinu, og átt þá ekki að vera að hóta í tíma eða ótíma að vera ekki í því.“

„Þá er það fjórða atriðið sem er meira þegar búið er að ná trausti og fara að huga að sameiginlegri framtíðarsýn,“ upplýsir Valdimar.

Aðspurður segir Valdimar að von sé fyrir pör til að laga sambandið, ef báðir aðilar skuldbindi sig því verkefni.

„Samkvæmt rannsóknum mun 80 prósent þeirra sem hafa haldið fram hjá ekki gera það aftur. Reynslan er sú að þeir sem vinna heiðarlega að því að byggja upp sambandið eftir framhjáhald hafa upplifað að sambandið verði sterkara og jafnvel innihaldsríkara,“ segir hann á léttum nótum.