Baldur Einarsson ráðgjafi hjá Lausninni segir sex sekúndna koss, þar sem varirnar snertast, geti skipt sköpum fyrir pör í aðdraganda jólanna og álaginu sem hátíðin getur haft á sambönd.

„Rannsóknir sýna fram á að ef pör kyssast í sex sekúndur daglega eiga þau í miklu nánara og innilegra sambandi,“ segir Baldur.

„Desember getur reynst mörgum erfiður mánuður á sama tíma og hann getur verið yndislegur,“ segir Baldur og leggur áherslu á að pör þurfa að mæta hvort öðru eins og að hjálpast að við undirbúning jólanna.

Jólaundirbúningur sem samverustund

„Ég vona innilega að við séum komin lengra á veg heldur en að það sé eingöngu á ábyrgð konunnar í sambandinu,“ segir Baldur og hvetur fólk að skapa dýrmæta samverustund með gjafakaupum og öðru skipulagi.

Spurður hvað fólk eigi að gera til að hlúa að sambandinu þegar jólastress getur herjað á segir Baldur litlu hlutina skipta miklu mál, „Það sem heldur okkur gangandi eru tengsl. Megin mistökin sem við gerum í parsambandi er að huga ekki að hvort öðru.

Við höldum að þetta snúist um ótrúlega langan tíma. Góðar fimm mínútur gera ótrúlega mikið. Eins og að gefa maka sínum augnsamband og spjall um hvernig dagurinn hjá viðkomandi hafi verið,“ segir Baldur.

Mismunandi áherslur karla og kvenna

„Í öllu stessinu getur einnig komið upp svo mikill misskilningur á milli karls og konu þegar kemur að nándinni þar sem að konur þurfa mun meiri tilfinningalega örvun heldur en karlmenn,“ segir Baldur og bætir við að karlmenn horfi og æsist upp en konur æsist við snertingu.

Baldur mælir með að fólk kynni sér ástartungumál hvors annars. „Í appi sem heitir love-nudge má finna spurningar til að komast að því hvað sé þitt ástartungurmál. Við leitumst við að skilja fólk, þá þurfum við ekki að skilja við fólk,“ segir Baldur og tekur dæmi um að snerting geti verið ástartungumál einhvers.

„Þegar ég labba fram hjá maka mínum og snerti hana á hlutlausum stað,“ segir Baldur og tekur sem dæmi að strjúka maka á öxlinni eða kyssa kinnina: „Ástartungumálið er algjör snilld í kringum jólin.“