„Ég er ekki viss um að ég hefði getað opnað þennan vef fyrir einhverjum árum, eða hvort fólk hefði verið móttækilegt fyrir því,“ segir Sigga Dögg kynfræðingur um nýtt hjálpartæki ástarlífsins, heimasíðuna Betra kynlíf.

Að sögn Siggu Daggar er fólk meira forvitið um kynlíf í dag en áður. „Fólk vill gangast við alls konar löngunum og fantasíum. Það vill fá aðstoð við að ræða það innan síns sambands og fá að skoða alls konar hluti, alveg sama hvort það langi að prófa það sjálft.“

Sigga Dögg segir tilganginn með vefnum að fræða fólk um kynlífstengda hluti, sem það vissi kannski ekki áður. „Margir upplifa skömm og vanlíðan í kynlífi og var heimasíðan einnig hugsuð til að létta á því.“

Hvernig verður kynlíf betra í samböndum?

„Fólk á að nýta sér verkfæri líkt og vefsíðuna til að geta kastað fram spurningum sín á milli, senda stiklurnar og ræða þetta. Þetta hefst allt á samtalinu,“ segir Sigga Dögg.

Sigga Dögg er kynfræðingur og veit hvað hún syngur þegar kemur að kynfræðslu. Vefsíðan betrakynlif.is opnaði á dögunum þar sem hún að deilir kynlífstengdum upplýsingum og umræðum með landanum.

„Mér ber skylda að deila því, ekki nóg með að ég viti alls konar heldur er ég líka tengd inn í stórt alþjóðlegt tengslanet sérfræðinga sem býr yfir margs konar og einstakri þekkingu,“ segir hún.