Jólin og undirbúningur jólanna er á næsta leiti sem getur verið erfiður tími fyrir marga.

Einstaklingar sem fara í gegnum sambandsslit og ástarsorg geta upplifað sig einmanna og jafnvel fundið fyrir ákveðnum tómleika þegar hlutirnir breytast.

Að sögn Theodórs Francis Birgissonar klínísks félagsráðgjafa hjá Lausninni, fjölskyldu og áfallamiðstöð geta sumir einstaklingar upplifað þennan tíma það erfiðan að þeir óska sér einfaldlega að sofna í desember og vakna ekki aftur fyrr en á nýju ári.

„Tíminn getur verið mjög erfiður fyrir þá sem eiga góðar minningar frá liðnum jólum en ný afstaðinn skilnaður eða ástarsorg getur sett allt jólastússið í einn stóran kvíða rembihnút,“ segir Theodór.

„Í slíkum tilfellum er mikilvægt að gera sér grein fyrir að sársaukinn er ekki ímyndun heldur raunverulegur og sannarlega til staðar en er samt ekki eina tilfinningin sem fer um hugann.“

Mikilvægt að ræða eigin líðan

Theodór leggur áherslu á mikilvægi þess að ræða líðan sína við fagaðila eða traustan vin. „Það er að segja að gefa sársaukanum pláss en passa að hann fái ekki að taka allt plássið.“

Þá á ástarsorg sterka tilhneigingu til að líða hjá og að framundan geti verið mun betra líf en var í því sambandi sem viðkomandi syrgir. „Þetta finnst mörgum sem eru í ástarsorg algerlega fráleidd hugmynd og sjá ekki lengra en sársauka dagsins í dag.“

Huga vel að líkama og sál

Theodór segir það mikilvægt að staldra við og taka sér tíma frá amstri dagsins. „Ef hægt væri að hætta að vinna aðeins fyrr á daginn og leggja áherslu á samveru með þeim sem eru þér nánastir.“

Þá sé mikilvægt að huga að hvíld, næringu og hreyfingu þar sem kerfið starfar sem heild. „þegar eitthvað af þessu þrennu fer úr jafnvægi fer allt kerfið okkar úr jafnvægi,“ segir hann og mælir með að fólk gæti að sjálfsmildi og sjálfsumhyggju á svona tímum.