„Þetta er allt að klárast og nú höldum við á­fram að horfa á okkur keppa í Euro­vision í kvöld. Við klárum það og svo fer megnið af hópnum heim á morgun,“ segir Felix Bergs­son, farar­stjóri ís­lenska Euro­vision-hópsins, í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Hann segir að síðustu klukku­stundir og dagar hafi farið í að sinna skipu­lags­málum eins og síðasta CO­VID-prófinu sem gerir hópnum kleift að ferðast heim á morgun.

„Við ætlum að koma okkur vel fyrir á hótelinu seinni partinn í dag. Borða góðan mat og hella okkur ein­hverju góðu glingri í glas og njóta þess að fylgjast með keppninni úr hinu til­búna græna her­bergi á hótelinu,“ segir Felix.

Eins og fyrr segir fór teymið í CO­VID-próf í dag og reyndust allir nei­kvæðir nema Jóhann en Stefán, her­bergis­fé­lagi hans, er þó ekki enn laus úr sótt­kví og því þurfa þeir báðir aftur að horfa á keppnina einir á her­berginu sínu.

„Hann er enn í sótt­kví í minnsta kosti sólar­hring í við­bót,“ segir Felix.

Bara ánægð að keppnin sé haldin

Spurður um á­hrif veirunnar á keppnina í ár segir hann á­hrif hennar greini­leg en að hann skynji það vel hversu á­nægt fólk er að keppnin sé þó haldin.

„Það eru allir í hamingju­kasti yfir því að það sé hægt að gera þetta. Fyrir marga markar þetta á­kveðna opnun og nýja tíma. Það er búið að vera svaka­legt á­stand í Evrópu víðast hvar og er enn í Hollandi, það eru enn allt of mörg smit hér. En sam­hliða bólu­setningu erum við að sjá breytingar og þetta, að Euro­vision sé haldið, er eitt af því sem að sýnir það að þetta er allt að opnast aftur,“ segir Felix.

En það er al­ger­lega búið að loka á það að hópurinn, þótt hann vinni, fái að fara á svið?

„Já, sótt­varnar­reglurnar eru þannig og við hlýðum því og tökum því sem kemur. Mér skilst að það sé búið að reikna tímann hvað það tekur langan tíma að koma verð­laununum upp á hótel,“ segir Felix og grínast með það að ef það verða miklar tafir hjá kynnum þá geti Ís­lendingar gert sér góðar vonir.

„Við getum verið gríðar­lega stolt af þessu frá­bæra unga lista­fólki sem stígur á stokk í kvöld fyrir Ís­lands hönd,“ segir Felix.

Hann segir að þau finni mikinn stuðning í Rotter­dam og á netinu og séu þakk­lát fyrir það hvernig fólk „lifir þessar hremmingar með þeim“.

„Það hefur hjálpað okkur að taka byrðarnar að­eins og hefur verið mjög gott,“ segir Felix.

Síðasta Euro-kvöld Daða Freys

Daði sagði í gær í fréttum að hann ætlaði ekki að taka þátt aftur nema í bak­röddum eða að semja fyrir aðra. Heldurðu að það sé rétt hjá honum?

„Já, ég held það sé hár­rétt hjá honum. Eftir kvöldið í kvöld verður hans Euro-ferli lokið í bili. Hann var að senda frá sér stór­kost­lega EP-plötu og lagið er á fljúgandi ferð og gæti allt eins haldið á­fram. Það er flott remix frá Chro­meo og Daði er á rosa fínu flugi. Hann þarf ekki meira á Euro­vision á halda,“ segir Felix.

Sterk og skemmtileg keppni í kvöld

Spurður um keppnina í ár og aðra kepp­endur segir Felix að hún sé sterk í ár.

„Þetta verður gríðar­lega spennandi í kvöld hvernig þetta fer. Það eru margir kallaðir en fáir út­valdir. Ég sé að veð­bankarnir eru lang­spenntastir fyrir Ítalíu núna og það verður spennandi að sjá hvort að það gengur eftir. Mér finnst þau ó­trú­lega skemmti­leg, en þau eru ekki allra, og það á eftir að koma í ljós þegar talið verður upp úr stiga­kössunum,“ segir Felix.

Hann segir að gæðin séu mikil í ár og að „showið“ verði alveg sturlað í kvöld.

„Þetta er á öðru le­veli,“ segir Felix.

Spurður um klæðnað kepp­enda í ár segir Felix að það sé margt skemmti­legt að gerast á sviðinu í ár. Hann nefnir sér­stak­lega galla grísku söng­konunnar Stefaniu en með henni eru dansarar í „green screen“ búningi þannig það lítur út fyrir að að­eins jakka­fötin ein séu með henni.

„Hún er gjör­sam­lega „outra­geous“ söng­konan frá San Marino og er alveg „over the top“,“ segir Felix sem segir að það sé mikill spenningur í kringum Flo Rida sem er amerískur rappari og er með söng­konunni Sen­hit í laginu Adrena­lina.

Hefurðu ein­hverju við þetta að bæta?

„Muna að skemmta sér vel og ganga hægt um gleðinnar dyr. Það eru börn líka að horfa í sam­kvæmum og farið var­lega í á­fengið og njótið þess að horfa á keppnina, hlusta og kjósa og skemmta ykkur,“ segir Felix að lokum.