Dýrleif Skjóldal, sundþjálfari og leikskólakennari á Akureyri, var spurð hvort sund væri í raun og veru jafn gott og um er rætt. Hún segir svo vera. „Sund er gott alhliða, hvort sem fólk ætlar að auka þol/þrek, liðka sig eða styrkja. Sund bætir andlega, félagslega og líkamlega líðan. Gott sund er mikil tækni og þjálfar heilann líka vel, það krefst samhæfingar og mýktar en líka krafta,“ segir Dýrleif, eða Dilla eins og hún er betur þekkt.

Dilla segir að sund styrki alla vöðvahópa líkamans. „Það fer þó eftir hversu mikið sund er stundað hversu mikið þeir styrkjast. Í stuttu máli má þó segja að allir vöðvar og liðir þjálfist og styrkist við alhliða sundæfingar,“ segir hún og bætir við að yfirleitt séu Íslendingar góðir í sundi. „Miðað við aðrar þjóðir erum við mun betri enda eru íslensk börn þau einu sem eru með sundkennslu sem skyldugrein í grunn- og framhaldsskóla. Í rauninni ættu Íslendingar að vera betri í sundi miðað við þjálfunina.“

Þegar Dilla er spurð hversu mikið þurfi að synda til að það hafi góð áhrif á líkamann, svarar hún: „Ef fólk hefur ekkert synt þá liggur við að ég segi að tvær ferðir séu nóg. Oft fer fólk of geyst af stað og ætlar sér að byrja á kílómetra og heldur það ekki út. Betra er að byrja rólega og synda fjölbreytt. Skipta á milli þess að vera á baki og maga, nota bara hendur eða fætur. Byrja á að synda í 5–10 mínútur og auka það svo í 15 í stað þess að ákveða fjölda ferða. Það sem er svo gott við sund er að fólk er ekki að fara neitt, það getur haft það akkúrat eins og því hentar. Stuttur tími eða langur, ein pottaferð eða þrjár, hratt eða hægt, allt sund er gott,“ segir hún.

„Öll hreyfing sem eykur blóðrásina inn í liði og vöðva sem eru bólgnir og stirðir er góð og sund er mjúk hreyfing sem er líka gerð í hita og það hefur mjög góð áhrif, sérstaklega ef farið er í kalda sturtu að því loknu eða aðra kælingu. Fólk ætti að njóta sundsins og slaka á. Sumum hentar að synda fyrst í tiltekinn tíma, aðrir fara fyrst í pott og synda svo og fara jafnvel aftur í pott. Það þarf bara að finna þá leið sem hentar best.“

Hversu oft ættum við að synda í viku?

„Daglega drepur engan, heldur ekki oft á dag. Að gera sund að hluta af sínum lífsstíl er best – það sem hentar best er það sem er best fyrir þig. Sumar tegundir sunds henta betur vegna einhverra krankleika, en ef fólk er ekki að fara á Ólympíuleika þá má bara synda eins og manni best þykir. Höfrungasund er til dæmis frábær hreyfing. Til að fá alhliða hreyfingu út úr sundi er best að hafa það sem fjölbreyttast og alls ekki gleyma að kafa, fljóta og leika sér,“ segir Dilla.