Þrátt fyrir að vera aldagamalt fyrirbæri þá er eflaust stutt síðan margir Íslendingar heyrðu fyrst um tófú. Tófú hefur verið mikilvægur hluti af mataræði margra Asíuþjóða öldum saman en dæmi er um neyslu tófú í Kína frá því fyrir 2.000 árum. Tófú er mikið notað í Kína, Japan, Kóreu og löndum í Suðaustur-Asíu, þá einna helst í Taílandi og Víetnam. Talið er að vinsældir tófús á þessum svæðum hafi tengst aukinni útbreiðslu búddisma en samkvæmt þeim fræðum er betra að neyta afurða úr jurtaríkinu og tófú því kjörið, enda einstaklega góður og fjölbreyttur próteingjafi.

Annar kostur við framleiðslu og neyslu á tófú er það hversu umhverfisvænt það er en því fylgir lítið vistspor.

Griðastaður grænmetisæta

Það kemur því ekki á óvart að tófú fæst nánast undantekningarlaust á veitingastöðum sem sérhæfa sig í asískri matargerð en það mætti segja að asískir veitingastaðir séu oft hálfgerð vin eða griðastaður í eyðimörkinni sem líf grænmetisætunnar getur verið. Oft er tófúið ekki endilega marinerað á þessum veitingastöðum en það er mikið lagt upp úr sósunni og útkoman yfirleitt ljúffeng. Á Vesturlöndum aftur á móti er afar vinsælt að marinera tófúið og oftar en ekki er það marinerað í tamari-sósu.

Framleiðsla og næringargildi

Tófú er unnið úr hleyptum sojabaunum og er ferlið ekki ósvipað ostagerð. Sojamjólkin er hituð og svo er magnesíum- og kalsíumklóríði bætt við til þess að ysta mjólkina. Þá er sú afurð pressuð svo úr verður (mis)þéttur tófúkubbur. Tófú er járn- og kalkríkt, hitaeiningasnautt auk þess sem það þykir einstaklega próteinríkt og því kjörið fyrir þá sem leitast eftir að auka umfang próteins í fæðu sinni.

Óskrifað blað

Tófú er sennilega best lýst sem tómum striga, bæði hvað varðar form, áferð og bragð. Ef ætlunin er að nota tófú í matargerð þá er mælt með að kaupa stíft (e. firm) tófú. Mýkri gerðin af tófú er frekar notuð í t.d. eftirrétti, sósur, þeytinga og í stað eggja.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þurrka tófúkubbinn vel og vandlega og eru ýmsar leiðir til þess. Sumir nota sérstakar tófúpressur, aðrir vefja því inn í viskustykki og setja jafnvel skurðarbretti með dósum eða pönnu ofan á til þess að þrýsta enn meiri vökva úr því en oftast nær dugir að vefja það í eldhúspappír eða viskustykki og kreista varlega. Þá er líka þekkt að skera það niður í bita og þurrka svo bitana sérstaklega með því að leggja þá ofan á og undir pappír eða þá pressa tófúið, skera það niður og svo þurrka það aðeins í ofninum áður en það er marinerað.

Því næst er hægt að baka það, steikja það eða jafnvel grilla. Bakað eða steikt tófú er bæði auðvelt og fljótlegt en bakað getur verið þægilegra vegna þess að það þarf ekki að standa yfir því og hægt er að nota minni olíu við bakstur. Þá eru margar leiðir til þess að skera það niður eða jafnvel rífa það í sundur en það er vinsælt við gerð tófúhræru sem byggir á hinni hefðbundnu eggjahræru.

Tófú skorið niður í kubba er alltaf sígilt

Einföld tófúmarinering

Skvetta af tamari-sósu (glútenlaus sojasósa)

1-2 pressuð hvítlauksrif (eða hvítlauksduft) ásamt smá olíu

½-1 msk. laukduft

Bakað í ofnskúffu á bökunarpappír eða í eldföstu móti við 200 gráður í 25-35 mín. eða pönnusteikt á millihita í 15-20 mín., þar til að það orðið gyllt og stökkt, en lengd eldunartímans fer eftir því hversu stökkt þú vilt hafa það.

Ef þú vilt hafa tófúið extra stökkt þá getur líka verið sniðugt að bæta við einhverskonar sterkju eins og t.d. möndlu­mjöli í marineringuna.

Þá er líka gott að bæta við eða nota t.d. BBQ sósu, Teryaki, sesamolíu eða einhvers konar chilisósu eða -mauk, en í raun er hægt að marinera það upp úr hverju sem hugurinn girnist.

Kaldar vegan sósur

Dæmi um góðar sósur með ofnbökuðu eða pönnusteiktu tófú eru köld jógúrtsósa eða chili-majónes. Hægt er að velja á milli hafra-, soja-, möndlu- eða kókosjógúrtar en núna er hægt að gera lygilega góðar vegan sósur þökk sé stórauknu framboði vegan vara hérlendis

Köld jógúrtsósa

1 dós hrein jurtajógúrt („grísk“ hafrajógúrt er sérlega góð)

Smakkað til með ferskum sítrónusafa, salti, laukdufti og olíu

½-1 pressað hvítlauksrif eða smávegis hvítlauksduft

Þá er gott að bæta við ferskum kryddjurtum, smátt söxuðum gras- eða vorlauk og/eða smátt saxaðri gúrku.

Vegan chili-majónes

Vegan majónes (fæst í flestum matvöruverslunum)

Sriracha eða chili-mauk

Smakkað til með salti, hvítlauks- og laukdufti

Aðrar hugmyndir

Þá er einnig gott að bera tófú fram með sveppasósu en hægt er að velja úr ótal gerðum jurtarjóma í stað hefðbundins rjóma. Hnetu- eða satay-sósa er líka sérlega góð ásamt hvers kyns karríi.

Hugmyndir að meðlæti

Dæmi um gott meðlæti er t.d. ofnbakað og léttkryddað grænmeti (t.d. kartöflur, gulrætur, sæt kartafla, spergilkál, rauðlaukur), ferskt salat, hrísgrjón eða kínóa. Þá er líka virkilega gott að útbúa léttari útgáfu og hafa þá meira af fersku salati eða jafnvel setja marineraða tófúbita á grillspjót ásamt grænmeti.

Tófúhræra

Þar sem áferðin á tófú er ekkert svo ósvipuð eggjum þá er afskaplega hentugt að nota það í svokallaða tófúhræru sem er ákveðinn snúningur á eggjahræru. Sumir nota einingus stíft eða mjúkt tófú í tófúhræru en það getur líka verið gott og jafnvel enn betra að blanda saman stífu og mjúku.

Innihald:

Einn pakki tófú

Það grænmeti sem til er (hægt er að bæta við alls kyns grænmeti eins og t.d. sveppum, blaðlauk, grænkáli, papriku og er tófúhræran því tilvalin þegar taka þarf til í grænmetisskúffunni).

Marinering:

1 matskeið vegan smjör eða olía til að steikja upp úr (best að fitan sé sem bragðminnst)

1 msk. tamari-sósa

2 msk. næringarger (nutritional eða Brewer’s yeast)

½ tsk. túrmerik (gefur fallegan gulan lit)

½ tsk. paprikuduft

½ msk. laukduft

1 tsk. hvítlauksduft og/eða 1 ferskur pressaður hvítlauksgeiri

1 tsk. dijon-sinnep

⅓ bolli af haframjólk- eða rjóma (hægt er að nota hvaða jurtarjóma eða -mjólk sem er)

Það er líka virkilega gott að nota svokallað „indverskt“ svart salt (sem er að vísu meira bleikt á litinn) en það gefur bragð sem líkist mjög eggjabragði.

Opnaðu, skolaðu og þurrkaðu tófúið (sjá að ofan). Myldu niður eða stappaðu tófúið með gaffli þar til það er orðið eins gróft eða fínt og þú vilt hafa það (ekki of fínt). Blandaðu marineringunni vel saman í skál og helltu yfir tófúið. Á meðan tófúið dregur í sig marineringuna er gott að skera niður grænmeti og steikja á pönnu í örfáar mínútur. Síðan er tófúinu bætt við ásamt marineringunni og steikt við miðlungshita í nokkrar mínútur. Gott að bera fram með fersku avókadó og vorlauk og t.d. sriracha- eða tómatsósu. Tilvalið í vegan dögurð ásamt t.d. bökuðum kartöflum, grilluðum tómötum, vegan osti og ristuðu brauði.