Áhugi Sigurjóns Haraldssonar á hjólreiðum kviknaði fyrir nokkrum árum þegar hann hóf að hjóla einn og einn dag til og frá vinnu. Vegalengdin var um fimm kílómetrar og notaði hann gamalt fjallahjól sem hann átti. „Þetta var árið 2013 og ég var býsna hróðugur með þetta afrek. Þá sá ég viðtal við konu sem bjó í Vogum á Vatnsleysuströnd og hjólaði daglega í og úr vinnu en hún vann á Borgarspítalanum. Þessa leið hjólaði hún á fermingarhjóli sonar sín en hvor leið er um 36 km. Þá ákvað ég að byrja að hjóla daglega þessa stuttu leið í vinnuna mína.“

Í upphafi árs 2014 skoraði sonur Sigurjóns á hann í keppni um hvor yrði á undan að hjóla 2.000 kílómetra á árinu. „Fyrir fram hefði ég ekki getað ímyndað mér að nokkur maður hjólaði svo mikið á einu ári en í október náði ég þessu ótrúlega markmiði og hrósaði um leið sigri í þessari keppni milli okkar feðga. Undanfarin ár hef ég aftur á móti hjólað 7-10.000 kílómetra á ári enda hjóla ég í og úr vinnu allan ársins hring.“

Margar keppnir

Ári síðar uppfærði Sigurjón hjólakost sinn og keypti sitt fyrsta racer-hjól og skráði sig í sína fyrstu hjólakeppni. „Um var að ræða hálfa Jökulmílu en þá var hjólað frá Grundarfirði í Stykkishólm og aftur til baka, um 78 km. Ég kláraði keppnina með herkjum þar sem hnakkurinn á hjólinu hentaði engan veginn en þó náði ég 35. sæti af um 80 keppendum.“

Sama sumar skráði Sigurjón sig í hjólaklúbb Víkings þar sem fyrir var frændi hans Hartmann K. Guðmundsson. „Hann var og er mín helsta fyrirmynd og mikill áhrifavaldur í hjólalífi mínu. Þar hef ég fundið mig mjög vel og fengið mikla hvatningu frá félögunum og eignast marga frábæra vini.“

Frá 2015 hefur Sigurjón tekið þátt í flestum mótum í götuhjólreiðum og vann m.a. fyrstu gullverðlaunin í sínum aldursflokki þegar hann tók þátt í KIA Gullhringnum árið 2015. Auk þess bættist fjallahjól í safnið á síðasta ári. „Undanfarin ár hef ég tekið þátt í mörgum keppnum og oft náð góðum árangri. Þar má m.a. nefna Vesturgötuna, WOW cyclothon og Tour of Reykjavík. Ég tók síðan þátt í mínu fyrsta fjallahjólamóti á síðasta ári en það var Bláa lóns þrautin. Svo má nefna að ég vann titilinn Hjólagarpur Húsasmiðjunnar 2018 eftir að hafa hjólað flesta kílómetra í keppninni Hjólað í vinnuna sem haldin er á hverju sumri.“

Auk formlegra keppna hjólar Sigurjón auðvitað mikið með hjólafélögum sínum allt árið um kring. „Utan þess að hjóla í og úr vinnu allt árið og stunda æfingar með Víkingi og hjóla ég með félögunum í mislöngum túrum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni en líka á Snæfellsnesi og á Norðurlandi. Næst á dagskránni er Spánarferð með Víkingum í apríl þar sem fjölmennur hópur ætlar að leggja land undir fót og hjóla vítt og breitt í vikutíma.“

Góð áhrif á heilsuna

Þrátt fyrir að hafa stundað ýmsa líkamsrækt undanfarin ár hafa hjólreiðarnar átt stóran þátt í betri andlegri og líkamlegri heilsu hans. „Í dag er ég 62 ára gamall. Ég hef stundað dans, víðavangs- og fjallgöngur og ýmislegt fleira undanfarin ár en hjólreiðar hafa verið mitt helsta áhugamál síðan ég byrjaði að æfa með Víkingum. Hjólreiðar veita mér mikla ánægju og hafa bein áhrif á heilsuna, bæði líkamlega þar sem styrkur minn og þrek hefur tekið miklum framförum, og ekki síður andlegu heilsuna þar sem allt lagast þegar ég er kominn á hjólið. Stefnan er að halda áfram á sömu braut næstu ár og njóta félagsskaparins, íslenska veðursins og gera mitt besta úr því sem ég hef að spila úr og uppskera um leið gleðina, frelsið og vonandi góða heilsu áfram.“