Mér finnst eitt­hvað á­huga­vert við bækur, að vinna á blað­síður með alls konar sögum og upp­lýsingum, í stað þess að byrja með autt blað,“ segir Helga Arnalds sem sýnir í Grafík­salnum í Tryggva­götu. Tæknin sem hún beitir við list­sköpunina er djúp­þrykk, há­þrykk og teikningar. Einnig eru á sýningunni akríl­myndir og þrí­víð vegg­verk – og alltaf hefur hún bókina sem upp­sprettu. Þannig vefur hún saman rit­list og mynd­list, upp­lýsingar og á­ferð og úr verður ný merking. „Ég hef ekki unnið með bækur áður. En í leik­húsinu hef ég stundum notað á­kveðið efni í hverju verki, í Lífinu er það mold, í Skrímslinu var það pappír. Hér er ég líka með pappír en allt annars eðlis.“

Gróður Íslands eftir Steindór Steindórsson varð Helgu að innblástri.

Gulnuð blöð

Þetta er önnur einka­sýning Helgu á mynd­listar­sviðinu, sú fyrri var í SÍM-salnum fyrir tveimur árum. Hún stundaði mynd­listar­nám í Lista­há­skólanum og út­skrifaðist þaðan 2008 en kveðst hafa haldið á­fram í leik­húsinu eftir námið. „Mynd­listin blundaði í mér og það mynd­ræna hefur alltaf verið út­gangs­­punktur í leik­húsinu hjá mér. Samt eru vinnu­að­ferðirnar ó­líkar. Mig vantaði þetta sem mynd­listin býður upp á, að vera ein með sjálfri mér að vinna. Það er allt öðru­vísi en í leik­húsinu þar sem maður er stöðugt í sam­tali og sam­skiptum, sem er auð­vitað skemmti­legt líka. En ég hef alltaf verið að teikna og mála frá því ég var lítil.“

Bækurnar, sem eru byggingar­efni Helgu nú, kveðst hún hafa fengið í Góða hirðinum. „Þetta voru bækur sem fólk var að losa sig við, ég girntist sér­stak­lega bækur sem voru svo­lítið gulnaðar og báru með sér sögu um notkun. Fann fyrir því í byrjun að um visst guð­last væri að ræða því alltaf er eitt­hvað heilagt við bækur en nú lít ég svo á að þessar hafi öðlast nýtt líf.“

Sýninguna má sjá á Listasafni Íslands.

Titil­blaðið hluti af verkinu

Helga býr til seríur sem hver um sig er úr á­kveðinni bók og titil­blaðið er hluti af verkinu. Svo kallar hver bók á sína vinnu­að­ferð. „Ég er að svara bókinni,“ tekur lista­konan fram. „Serían úr Gróður á Ís­landi er gerð með ætingu, ég bý til náttúru­mynstur á plötur, sem ég prenta á síðurnar þannig að textinn sést í gegn og ein­staka orð. Svo er það Dansk-ís­lenska orða­bókin, ég á­kvað að nota rauða, danska fána­litinn á hana. Bókin er mikið notuð og angaði af sætu, kven­legu ilm­vatni. Þess vegna verða mynstrin svo­lítið kven­leg og rauði liturinn getur verið kven­legur á svo margan hátt. Ef­laust hefði verkið litið allt öðru vísi út ef bókin hefði lyktað af nef­tóbaki! Hvort sem um er að ræða texta­brot, mynd­list eða punkta á blaði, allt kveikir merkingu í huga okkar. Það finnst mér á­huga­vert,“ segir hún brosandi.

Danska orða­bókin er stór og Helga nýtti hana í tvö verk, í öðru þeirra eru viss grunn­form á­berandi. „Ég er líka að leika mér með rýmið sem myndast milli formanna og síðnanna. Það gæti verið mynd­letur,“ út­skýrir hún.

Næst komum við að þrí­víðu vegg­verki. Þar hefur Helga brotið nokkrar bækur með origami-að­ferð og myndað mynstur úr þeim. Hver bók hefur þar sitt ein­kenni, það fer meðal annars eftir fjölda mynda og gulnun blaða „Þetta er mikil handa­vinna,“ tekur lista­konan fram. „Í staðinn fyrir að prjóna fyrir framan sjón­varpið sat ég og braut bækur.“

Grafík­salurinn til­heyrir Tryggva­götu 17 en gengið er inn hafnar­megin. Sýningin er opin fimmtu­daga til sunnu­daga klukkan 14 til 17.