Kvikmyndir

The Gentlemen
★★★

Leikstjórn: Guy Ritchie

Leikarar: Matthew McConaughey, Charlie Hunnam, Michelle Dockery, Hugh Grant, Colin Farrell

Guy Ritchie olnbogaði sig inn í kvikmyndaheiminn með myndinni Lock, Stock & Two Smoking Barrels og innsiglaði síðar hugtakið „Guy Ritchie-mynd“ með Snatch. Myndirnar tvær, og síðar RocknRolla, eru keimlíkar sögur af undirheimum Bretlands, troðfullar af litríkum persónum, eftirminnilegum frösum, örri klippingu og söguþræði í gríðarlegri flækju sem leysist þó alltaf einhvern veginn að lokum. Inn á milli hefur Ritchie dútlað við alls konar misgóðar myndir sem flokkast ekki sem „Guy Ritchie-myndir“. The Gentlemen virtist því spennandi enda hefur hún öll einkenni hins klassíska stíls Ritchie.

Myndin segir frá bandaríska eiturlyfjakónginum Mickey Pearson sem rekur gríðarlega arðbært maríjúanaveldi í undirheimum Bretlands. Fullsaddur af grasbraski hefur Pearson ákveðið að selja veldið og kúpla sig út úr glæpalíferninu, en kúplingin er stirð og vegurinn að heiðvirðu lífi er torfær. Við tekur skrautleg atburðarás þar sem gráðugir eiginhagsmunaseggir reyna að maka krókinn og óvitandi grey dragast tilviljanakennt inn í ruglið.

Öll helstu stílbrögð Ritchie eru á sínum stað en þó virðist eitthvað vanta. Leikaravalið er stórbrotið og skara Colin Farrell og Hugh Grant fram úr í sínum hlutverkum, en persónurnar á heilt litið eru ekki jafn eftirminnilegar og í eldri myndum leikstjórans. Atburðarásin er ekki jafn hröð og flækjan hvorki jafn flókin né áhugaverð. Nokkur atriði stinga líka í stúf við glettið andrúmsloft myndarinnar og fara allt of langt í að reyna að dekkja myndina. Þær virka frekar eins og að hella bleki í kaffibollann frekar en að sleppa mjólkinni.

The Gentlemen kemst því ekki alveg með tærnar þar sem hinar myndirnar hafa hælana. Það er þó ekki þar með sagt að myndin sé léleg – þvert á móti er hún góð og bíóferðarinnar virði. Það er einungis í samanburði við hinar myndir Ritchie sem hún virðist dauf.

Niðurstaða: Fín skemmtun sem er þó ansi flöt í samanburði við bestu myndir Ritchie.