Hildigunnur Birgisdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2003 og hefur verið virk í sýningarhaldi í tæpa tvo áratugi. Hún segir þó fregnirnar um Feneyjatvíæringinn hafa komið sér í opna skjöldu.
„Það var náttúrlega bara pínu óraunverulegt að heyra af þessu. Ég var afar þakklát, átti náttúrlega ekki von á þessu þar sem það var ekkert opið kall og ég var ekkert búin að sækjast eftir þessu. Ég var bara ógeðslega upp með mér,“ segir hún.
Hvenær fékkstu að vita að þú hefðir verið valin?
„Það var í maí. Það var algjört grín að halda þessu leyndu. Ég gat sagt manninum mínum og dóttur minni og þau voru ekki alveg með á hreinu hvað þetta væri. Það var gott að komast á jörðina hjá þeim eftir að hafa öskrað úti í bíl. Er þetta mikið vesen? var spurningin sem ég fékk,“ segir Hildigunnur og hlær.
Það var algjört grín að halda þessu leyndu. Ég gat sagt manninum mínum og dóttur minni og þau voru ekki alveg með á hreinu hvað þetta væri. Það var gott að komast á jörðina hjá þeim eftir að hafa öskrað úti í bíl.

Oft að fást við sömu hlutina
Hildigunnur segist oft hafa heimsótt tvíæringinn og er því vel kunnug þessum heimsþekkta listviðburði. „Þetta er bara eitthvað sem myndlistarmenn gera. Þetta er svona hálfgerð uppskera á tveggja ára fresti.“
Með list sinni skoðar Hildigunnur gjarnan afurðir mannaldarinnar og neyslusamfélagsins og spyr spurninga um fegurð, notagildi og samhengi hlutanna. Hún segist strax vera byrjuð að pæla í því hvers konar verk hún muni sýna á tvíæringnum.
„Ég er oft að fást við sömu hlutina en þeir koma fram í mjög breytilegum birtingarmyndum hjá mér, ég vinn ekki í einn miðil eða á einn hátt í einhverju heildarkonsepti eða svoleiðis. Mér þótti einmitt mjög vænt um að vera valin en þurfa ekki að fara í gegnum inntökuferli, af því þá er ég frjáls undan tiltekinni heildarhugmynd og get haldið áfram með það sem ég er nú þegar að gera.“
Ég er oft að fást við sömu hlutina en þeir koma fram í mjög breytilegum birtingarmyndum hjá mér.
Risastórt samhengi
Hildigunnur gerir ráð fyrir að hún muni sýna mörg verk á tvíæringnum en ekki eitt stórt.
„Verk taka auðvitað alltaf mið af aðstæðum. Þetta verður bara sýning á mínum verkum. Þannig að það er það sem ég er að fara að gera, ég held bara áfram með verkin mín og þau fá kannski svolítið meira súrefni núna og fá að dafna,“ segir hún.
Þannig þú þarft þá kannski ekkert að hugsa þessa sýningu öðruvísi en vanalega?
„Nei, ekki bara nema að hver einasta sýning er náttúrlega öðruvísi af því það er alltaf annað samhengi. Þetta er náttúrlega risastórt samhengi sögulega séð í gömlum iðnaðarbyggingum.“
Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í ár og var sýningarrýmið nú í fyrsta sinn í gömlu skipasmíðastöðinni Arsenale. Hildigunnur gerir ráð fyrir að hún muni einnig sýna þar.

Framleiðum umframefni
Þú vinnur gjarnan með fundna hluti úr nærumhverfi. Muntu halda því áfram á tvíæringnum?
„Það verður alveg örugglega einhver fundinn hlutur, ég er náttúrlega alltaf heilluð af verkum mannanna. Við erum að framleiða umframefni á hverjum degi. Neyslusamfélagið er í óðaönn að framleiða efni fyrir næsta tvíæring.“
Spurð um hvaða hlutverki henni finnist listin gegna gagnvart neyslusamfélaginu segir Hildigunnur:
„Þetta er allt hluti af sömu ormagryfjunni sem við mannkynið erum búin að koma okkur í, listin er að sjálfsögðu ekkert undanskilin henni og ekki ég heldur. Þannig að mín afstaða hlýtur að eiga sér stað inni í miðri hringiðu þess. Ég er svo sem ekkert að fjalla um málið úr vernduðu umhverfi rannsóknarstofunnar heldur er ég bara inni í skrímslinu að reyna að henda reiður á þessum óskapnaði og er hluti af þessu kerfi á sama tíma.“
Stór sýning á ferlinum
Heldurðu að þetta verði stór stökkpallur fyrir þig sem listamann?
„Ég held að það geti alveg verið. Þetta er alla vega alltaf stór sýning í ferli listamanns. Þetta er gott tækifæri fyrir listamann til að þroskast, taka stöðuna og jafnvel hleypa sér eitthvert sem maður hefði ekki áður farið. Það er náttúrlega alveg ofboðslegt magn af sýningum og listamönnum sem eru þarna þannig að þetta er líka bara mikil ofgnótt og mikil veisla. En það yrði skemmtilegt ef einhver þeirra hundruð þúsunda sem fara þarna í gegn myndi kveikja á listinni manns og finna samhljóm með henni og einhverju innra með sér.“