Hildi­gunnur Birgis­dóttir út­skrifaðist frá Lista­há­skóla Ís­lands 2003 og hefur verið virk í sýningar­haldi í tæpa tvo ára­tugi. Hún segir þó fregnirnar um Fen­eyja­tví­æringinn hafa komið sér í opna skjöldu.

„Það var náttúr­lega bara pínu ó­raun­veru­legt að heyra af þessu. Ég var afar þakk­lát, átti náttúr­lega ekki von á þessu þar sem það var ekkert opið kall og ég var ekkert búin að sækjast eftir þessu. Ég var bara ó­geðs­lega upp með mér,“ segir hún.

Hve­nær fékkstu að vita að þú hefðir verið valin?

„Það var í maí. Það var al­gjört grín að halda þessu leyndu. Ég gat sagt manninum mínum og dóttur minni og þau voru ekki alveg með á hreinu hvað þetta væri. Það var gott að komast á jörðina hjá þeim eftir að hafa öskrað úti í bíl. Er þetta mikið vesen? var spurningin sem ég fékk,“ segir Hildi­gunnur og hlær.

Það var al­gjört grín að halda þessu leyndu. Ég gat sagt manninum mínum og dóttur minni og þau voru ekki alveg með á hreinu hvað þetta væri. Það var gott að komast á jörðina hjá þeim eftir að hafa öskrað úti í bíl.

Frá sýningu Hildigunnar Friður í i8 gallerí fyrr á þessu ári.
Mynd/Aðsend

Oft að fást við sömu hlutina

Hildi­gunnur segist oft hafa heim­sótt tví­æringinn og er því vel kunnug þessum heims­þekkta list­við­burði. „Þetta er bara eitt­hvað sem mynd­listar­menn gera. Þetta er svona hálf­gerð upp­skera á tveggja ára fresti.“

Með list sinni skoðar Hildi­gunnur gjarnan af­urðir mann­a­ldarinnar og neyslu­sam­fé­lagsins og spyr spurninga um fegurð, nota­gildi og sam­hengi hlutanna. Hún segist strax vera byrjuð að pæla í því hvers konar verk hún muni sýna á tví­æringnum.

„Ég er oft að fást við sömu hlutina en þeir koma fram í mjög breyti­legum birtingar­myndum hjá mér, ég vinn ekki í einn miðil eða á einn hátt í ein­hverju heildar­kon­septi eða svo­leiðis. Mér þótti ein­mitt mjög vænt um að vera valin en þurfa ekki að fara í gegnum inn­töku­ferli, af því þá er ég frjáls undan til­tekinni heildar­hug­mynd og get haldið á­fram með það sem ég er nú þegar að gera.“

Ég er oft að fást við sömu hlutina en þeir koma fram í mjög breyti­legum birtingar­myndum hjá mér.

Risa­stórt sam­hengi

Hildi­gunnur gerir ráð fyrir að hún muni sýna mörg verk á tví­æringnum en ekki eitt stórt.

„Verk taka auð­vitað alltaf mið af að­stæðum. Þetta verður bara sýning á mínum verkum. Þannig að það er það sem ég er að fara að gera, ég held bara á­fram með verkin mín og þau fá kannski svo­lítið meira súr­efni núna og fá að dafna,“ segir hún.

Þannig þú þarft þá kannski ekkert að hugsa þessa sýningu öðru­vísi en vana­lega?

„Nei, ekki bara nema að hver einasta sýning er náttúr­lega öðru­vísi af því það er alltaf annað sam­hengi. Þetta er náttúr­lega risa­stórt sam­hengi sögu­lega séð í gömlum iðnaðar­byggingum.“

Sigurður Guð­jóns­son var full­trúi Ís­lands á Fen­eyja­tví­æringnum í ár og var sýningar­rýmið nú í fyrsta sinn í gömlu skipa­smíða­stöðinni Arsena­le. Hildi­gunnur gerir ráð fyrir að hún muni einnig sýna þar.

Hildigunnur segir valið hafa komið sér í opna skjöldu en kveðst þegar vera byrjuð að undir­búa sig.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fram­leiðum um­fram­efni

Þú vinnur gjarnan með fundna hluti úr nær­um­hverfi. Muntu halda því á­fram á tví­æringnum?

„Það verður alveg örugg­lega ein­hver fundinn hlutur, ég er náttúr­lega alltaf heilluð af verkum mannanna. Við erum að fram­leiða um­fram­efni á hverjum degi. Neyslu­sam­fé­lagið er í óða­önn að fram­leiða efni fyrir næsta tví­æring.“

Spurð um hvaða hlut­verki henni finnist listin gegna gagn­vart neyslu­sam­fé­laginu segir Hildi­gunnur:

„Þetta er allt hluti af sömu orma­gryfjunni sem við mann­kynið erum búin að koma okkur í, listin er að sjálf­sögðu ekkert undan­skilin henni og ekki ég heldur. Þannig að mín af­staða hlýtur að eiga sér stað inni í miðri hringiðu þess. Ég er svo sem ekkert að fjalla um málið úr vernduðu um­hverfi rann­sóknar­stofunnar heldur er ég bara inni í skrímslinu að reyna að henda reiður á þessum ó­skapnaði og er hluti af þessu kerfi á sama tíma.“

Stór sýning á ferlinum

Heldurðu að þetta verði stór stökk­pallur fyrir þig sem lista­mann?

„Ég held að það geti alveg verið. Þetta er alla vega alltaf stór sýning í ferli lista­manns. Þetta er gott tæki­færi fyrir lista­mann til að þroskast, taka stöðuna og jafn­vel hleypa sér eitt­hvert sem maður hefði ekki áður farið. Það er náttúr­lega alveg of­boðs­legt magn af sýningum og lista­mönnum sem eru þarna þannig að þetta er líka bara mikil of­gnótt og mikil veisla. En það yrði skemmti­legt ef ein­hver þeirra hundruð þúsunda sem fara þarna í gegn myndi kveikja á listinni manns og finna sam­hljóm með henni og ein­hverju innra með sér.“