Þau gleðitíðindi bárust í gær að morgunkornið sígilda Cocoa Puffs muni snúa aftur í hillur verslana eftir árs fjarveru. Ritstjórn Fréttablaðsins stóð upp og klappaði enda tilheyra þar margir kókópöffs-kynslóðinni svokölluðu. En betur má ef duga skal og þegar þvælst er um höll minninganna rifjast margt gamalt og gott upp sem margir myndu gjarnan vilja endurheimta.

Blackerry-símarnir

Einu sinni voru Blackberry-símarnir sannkallað þarfaþing og höfðu um 20 prósent markaðshlutdeild árið 2010. Það var afar þægilegt að komast í tölvupóstinn og það var þægilegt að skrifa skilaboð með gömlu góðu tökkunum. En iOS og Android tóku fram úr og tæknin sem Blackberry keyrði á varð úrelt. Þann 4. janúar í ár var tilkynnt að ekki væri lengur hægt að hringja eða senda SMS.

Blár ópal

Þetta alíslenska nammi er goðsögn og þótt það hafi lengi verið ófáanlegt getur nostalgían enn kallað fram ólýsanlegt bragðið þegar þau sem voru svo heppin að ánetjast þessu hugsa til baka. Hin fá líklega því miður aldrei að vita hverju þau misstu af þar sem líkurnar á því að lykilbragðefnið finnist aftur eru hverfandi. Leitin að því ætti samt vitaskuld að vera í algerum forgangi hjá Nóa-Síríus svo leiðrétta megi sorglegustu skekkju íslenskrar sælgætissögu.

Subaro Justy

Fjórhjóladrifið tryllitæki sem komst allt. Af hverju Justy lifði ekki lengur er hulin ráðgáta því í minningunni framleiddi bíllinn nánast bensín. Þetta var hinn fullkomni unglingabíll úti á landi því í vetrarfærðinni var ekkert sem stoppaði hann. Ekkert. Það var einfaldlega ýtt á fjórhjólatakkann sem var ofan á gírskiptingunni og haldið af stað í hvaða veðri sem var. Og það voru oft vond veður úti á landi í gamla daga.

Lars Lagerbäck

Hver vill ekki Lars aftur? Maðurinn er enn þá alfa og ómega í fótboltaheiminum hér á Íslandinu góða. Þó að verið sé að reyna að afmá fingraför hans af landsliðsumhverfinu lifir hann í hjörtum Íslendinga sem maðurinn sem breytti áhugamönnum í lið sem vann England á EM 2016. Það mun aldrei gleymast.

McDonald’s

Það er auðvitað rannsóknarefni af hverju Mc­Donald’s skuli ekki vera á Íslandi. Það er reyndar enn frekari rannsóknarefni af hverju erlendar skyndibitakeðjur haldast illa á Klakanum því hér er ekki Starbucks, Burger King, Popeyes eða The Cheesecake Factory svo eitthvað sé nefnt. McDonald’s er eins um allan heim og Ólympíu­farar nota veitingastaðinn til að seðja hungrið á leikunum. Ef það er nógu gott fyrir Ólympíufara er það nógu gott fyrir landann og ferðamennina sem sakna þess að fá sér tvo ostborgara, franskar og gos. Þetta þarf ekki að vera flókið.

Bazooka-tyggjó

Þau eru fjölmörg sem sakna enn þessa sprúðl­andi fjöruga tyggigúmmís sem er þó sennilega mun bragðbetra í minningunni en það var í glæstri fortíðinni. Tyggjóið var heldur hart undir tönn en þegar búið var að tyggja það til tók augnablikssæla við. Ekki spillti heldur fyrir að tyggjóið var vafið inn í litla myndasögur af ævintýrum hins vígalega Joe.

Vegasjoppurnar

Háglans og yfirlýstar vegasjoppur nútímans eru afskaplega ósjarmerandi. Er ekki hægt að fara einhvern milliveg? Hafa einhvers konar kósí án þess að hafa lýsinguna í rauðabotni. Margir minnast gamla Staðarskála með hlýju í hjarta en gleyma lyktinni sem mætti fólki í stiganum þegar það gekk niður á klósettið. Það var alvöru hlandlykt. Nýi Staðarskálinn er oflýstur og því frekar stoppað í Víðigerði.

Svartir takkaskór

Merkilegt nokk eru þeir ekki til í neinum búðum. Allir spila fótbolta núna í einhverjum litum. Það er deilumál hvort það sé gott eða slæmt. Það þótti teljast til stórtíðinda þegar Hermann Gunnarsson birtist í hvítum skóm og var fyrsti íslendingurinn til að spila í öðruvísi litum. Hann var líka trendsetter fyrir lífstíð. Blessuð sé minning hans.

Heiðarlegar tilnefningar

  • Baugur Group

Hver saknar ekki stuðsins sem var í kringum Baug? Það var endalaust partí.

  • Gospillurnar

Kannski saknar þeirra enginn enda var gerð bein árás á alla tannhirðu með þeim. Í pillunum voru einhver efni svo sterk að það sveið undan þeim í tunguna.

  • Plastskeiðar í skyr og rör í safa.

Það getur bara ekki verið að þetta sé leiðin. Þetta pappadrasl er ekki að gera sig.

  • Fresca

Já, takk. Þarf ekkert frekari útskýringar.

Endalaust partí hjá Baugi Group.

Það sem má vera gleymt og grafið

  • Grímunotkun

  • Kassettur

  • Textavarpið

  • Símaskráin
Já, nei takk.